Home Í fréttum Niðurstöður útboða Fátt því til fyrirstöðu að IKEA-hús geti risið á Íslandi

Fátt því til fyrirstöðu að IKEA-hús geti risið á Íslandi

161
0
Mynd: VÍSIR/ANTON BRINK

Ekki er fyrirhugað að IKEA reisi ódýr hús hér á Íslandi eins og rætt hefur verið um að undanförnu. Að mati forstjóra Mannvirkjastofnunar er þó fátt því til fyrirstöðu að slík hús geti risið hér á landi.

<>

Þetta kom fram á málþingi sem IKEA hélt í dag sem bar yfirskriftina Hagkvæmir og umhverfisvænir byggingarkostir í þéttbýli. Þar komu saman íslenskir og erlendir sérfræðingar til að ræða hvernig byggja mætti hagkvæm og ódýr hús á viðráðanlegu verði. Áhersla var lögð á hvernig nýta mæti timbur sem byggingarefni.

Bo Klok húsin 20-30 prósent ódýrari en hefðbundin hús
Ewa Magnusson, framkvæmdastjóri hjá Bo Klok, samstarfsverkefni IKEA og verktakafyrirtækisins Skanska, sem byggt hafa saman ódýr hús víðsvegar um Evrópu kynnti þær lausnir sem fyrirtækið hefur nýtt sér til að byggja þúsundir íbúa á Norðurlöndunum síðastliðin ár og rætt hefur veruð um að komi hingað til lands.

Húsin eru svokölluð einingarhús úr timbri og eru einingarnar framleiddar í verksmiðjum, fluttar á byggingarstaðinn og reistar á steyptum grunni. Bo Klok bíður upp á fjölmargar tegundir af húsum, allt frá fjögurra hæða blokkum niður í minni parhús. Kostnaðarmunurinn felst einkum í því að húsin eru fjöldaframleidd.

Í máli Ewu kom fram að verð á húsum frá Bo Klok væri um 20-30 prósent lægra en verð á sambærilegum venjulegum húsum. Byggingarferlið væri stutt og í raun mætti reysa minnstu íbúðirnar á einum degi. Um 80% af byggingartíma húsanna fer fram í verksmiðjum þar sem einingarnar eru framleiddar.

Aðalviðskiptavinur Bo Klok eru fjölskyldur en um 20% af húsum væri seld til sveitarfélaga og leigufélaga með það að markmiði að bjóða upp á leiguíbúðir. Sagði Ewa að ekki væri á dagskránni að byggja slík hús á Íslandi en að fyrirtækið væri ávallt reiðubúið til þess að kynna sýnar lausnir væri áhugi fyrir slíku.

Hægt að flytja heila borg af húsum á einu flutningaskipi
Anders Josephsson frá The Swedish Wood Building Council og Lars Johanson frá AIX arkítektum kynntu hvernig nýta mætti timbur sem byggingarefni.

Anders lagði áherslu á hversu hratt mætti byggja væri timbur notað sem undirstöðuefni. Tók hann sem dæmi að byggja þyrfti um 400.000 íbúður í Svíþjóð á næstu 5 árum til að anna eftirspurn og að það myndi aldrei takast með núverandi byggingarhraða. Hinsvegar væri hægt að að byggja margra hæða byggingu með timburburðarvirki á um 15 vikum.

Þar að auki væri timbur umhverfisvænt byggingarefni og undir það tók Lars sem sagði að skógarnir á norðurhjara veraldar gætu á sjálfbæran hátt staðið undir því að timbur yrði eitt að aðalbyggingarefnum framtíðarinnar.

Lars og arkíktektastofan hans hafa þróað lausn sem er svipuð og við þekkjum frá IKEA þar sem timbureiningum er pakkað í flata pakka. Þannig mætti senda heilu borgirnar á milli landa í einu flutningaskipi í gámum og sagði hann lítið mál að tengja Ísland við það flutninganet yrði það sett upp.

Nefndi Lars til sögunnar fjölmörg dæmi um möguleikana á því að byggja úr timbur og sýndi myndir af stórum hótelum, bílastæðahúsum og skrifstofubyggingum þar sem burðarvirkið væri úr tré. Bar þar helst að nefna Copperhill Mountain Lodge, risastórt skíðahótel sem arkítektastofa Lars vann að og er að mestu úr timbri.

Ekkert því til fyrirstöðu að Bo Klok komi til Íslands
Allir fyrirlesaranir tæptu á ákveðnum fordómum í garð timburbygginga og þá sérstaklega varðandi brunahættuna. Björn Karlsson, forstjóri Mannvirkjastofnunar og sérfræðingur í brunavörnum timburbygginga var með svarið við því.

Sagði hann að byggingarreglugerðir væru orðnar þannig að hvaða byggingarefni sem er þyrfti að uppfylla ákveðnar brunavarnarkröfur. Þannig mætti í raun byggja úr hverju sem er svo lengi sem það stæðist þessar kröfur. Mikil þekking hafi orðið til á brunavörnum timburbygginga á undanförnum áratugum og því ættu brunavarnir þessara bygginga ekki að vera vandamál líkt og fyrr á öldum þegar heilu borgarhverfin fuðruðu upp í eldsvoðum.

Bjarni bar saman minnstu íbúðina sem Bo Klok býður upp á við íslenskar byggingarreglugerðir og sá hann fátt sem stangaðist á við íslenskar reglugerðir. Að hans viti væri því fátt því til fyrirstöðu að byggja ódýr einingarhús úr timbri eins og Bo Klok sérhæfir sig í.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra lokaði svo málstofunni með því að lýsa því yfir að efnt yrði til hugmyndasamkeppni um tillögur um það hvernig byggja mætti upp íbúðir hér á landi á sem ódýrasta og fljótlegastan máta. Sagði hún að það yrði að bregðast við húsnæðisvandanum hér á landi og til þess væri best að líta til lausna sem önnur lönd hafa gripið til.

Heimild: Vísir.is