Home Fréttir Í fréttum Skuldastaða heimilanna á Íslandi hefur batnað hratt að undanförnu

Skuldastaða heimilanna á Íslandi hefur batnað hratt að undanförnu

72
0

Skuldastaða heimilanna hefur batnað hratt að undanförnu og telst ekki lengur há í alþjóðlegum samanburði. Samkvæmt nýrri skýrslu greiningardeildar Íslandsbanka eru skuldir heimila í Danmörku, Hollandi og Noregi meiri en hér á landi, en þær eru svipaðar og í Svíþjóð.

<>

Þá eru skuldir heimilanna, sem hlutfall af landsframleiðslu og ráðstöfunartekjum, komnar í svipaða stöðu og þær voru áður en bólan fór að myndast á íbúðamarkaði hér á landi fyrir rúmum áratug.  Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Íslandsbanka, segir þetta afar jákvæðar fréttir fyrir íslenskt efnahagslíf.

„Þetta er verulegur bati. Það sem menn höfðu áhyggjur af eftir hrunið var að þetta háa skuldahlutfall myndi hægja á efnahagsbatanum. Þess vegna var afar mikilvægt að ná þessu niður og nú hefur það gerst. Til viðbótar við þetta hafa skuldir sem hlutfall af eignum og ekki síst húsnæðisskuldir sem hlutfall af eignum í húsnæði hefur verið að lækka og stendur tiltölulega vel sögulega. Þannig að það er tiltölulega gott veðrými orðið hjá heimilunum sem aftur ætti að ýta undir íbúðamarkaðinn, íbúðaverð og hagkerfið í það heila,” segir hann.

Ingólfur segir íslensk heimili nú komin í nokkuð öfundsverða stöðu.

„Hér er fjárhagsleg staða heimilanna, fólksins í landinu, betri en við höfum séð frá hruni og reyndar má teygja sig nokkuð aftur fyrir hrun. Í alþjóðlegum samanburði þá standa íslensk heimili orðið tiltölulega vel hvað þetta varðar. Þannig að þetta merkir ekki bara það að við erum að ná okkur niður úr þessu slæma árferði sem var, heldur líka eru íslensk heimili orðin í alþjóðlegum samamburði í tiltölulega öfundsverðri stöðu.“

En gæti þessi þróun þýtt annað góðæri?

„Þetta er klárlega einn af grundvöllum þess. Við erum að sjá þennan hraða vöxt núna bæði að bæta frekar í einkaneysluvöxtinn og hagvöxtinn. Við erum að spá því að hagvöxtur í ár verði 4,3 prósent og 4,4 prósent á næsta ári. Sem er nokkuð yfir langtímameðaltali og þenslan er komin aftur. Einn af þáttunum þarna að baki er þessi bætta fjárhagslega staða heimilanna,” segir Ingólfur.

Heimild: Vísir.is