Home Fréttir Í fréttum Framsýn á Húsavík hefur áhyggjur af þróun mála varðandi greiðslur erlendra verktaka...

Framsýn á Húsavík hefur áhyggjur af þróun mála varðandi greiðslur erlendra verktaka til samfélagsins

149
0
Mynd: 641.is

Framsýn, stéttarfélag hefur ákveðið að deila ákveðnum áhyggjum með sveitarfélögunum Norðurþingi og Þingeyjarsveit nú þegar framundan eru miklar framkvæmdir á Húsavík og á Þeistareykjasvæðinu í tengslum við uppbygginguna á Bakka. Í því sambandi hefur félagið þegar skrifað sveitarfélögunum bréf og komið sínum boðskap á framfæri við sveitarfélögin jafnframt því að bjóðast til að mæta á fundi hjá þeim til að ræða málin. Frá þessu segir á Framsýn.is

<>

Framsýn efast ekki um að framkvæmdirnar og þau framtíðarstörf sem verða til með uppbyggingunni verði svæðinu til heilla og bæti þannig mannlíf og búsetuskilyrði í Þingeyjarsýslum. Félagið hefur hins vegar áhyggjur af ákveðinni þróun sem virðist eiga sér stað samfara uppbyggingunni. Það er að verktakar sem bera ábyrgð á verkinu skuli ráða til sín erlenda undirverktaka til að sjá um uppbygginguna á forsendum laga nr. 45/2007. Lögin varða m.a. réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn til Íslands. Lögin veita fyrirtækjunum undanþágu frá því að greiða í lífeyrissjóði eða önnur sjóðagjöld af starfsmönnum eins og skylt er á íslenskum vinnumarkaði skv. lögum nr. 55/1980. Að öðru leiti ber fyrirtækjunum að fara eftir íslenskum kjarasamningum. Þá ber þess að geta að samkvæmt skattalögum er erlendum fyrirtækjunum er starfa tímabundið á Íslandi, eða í allt að sex mánuði, undanskilin frá því að greiða útsvar eða tekjuskatt af starfsmönnum til sveitarfélaga eða í ríkisjóð Íslands.

Fyrir liggur að sveitarfélögin munu verða fyrir töluverðum tekjumissi í formi útsvars haldi þessi þróun áfram varðandi uppbygginguna á Bakka. Þetta er löglegt en kallar á umræðu um uppbygginguna hvað þessa þætti varðar. Málið er reyndar ekki einskorðað við fyrirtæki í byggingariðnaði. Framsýn þurfti m.a. að skipta sér að íslensku fyrirtæki í matvælaiðnaði á félagssvæðinu sem fór þessa sömu leið í haust, það er að fela erlendu fyrirtæki að sjá um tímabundna framleiðslu á Húsavík í umboði fyrirtækisins. Erlenda fyrirtækið bar ekki skylda til að greiða útsvar eða aðra skatta í ríkisjóð þar sem þessi leið var farin hvað þá að greiða kjarasamningsbundin gjöld til Framsýnar eða í lífeyrissjóði á Íslandi.

Í bréfi Framsýnar til sveitarfélaganna kallar félagið eftir umræðu um þessa þróun sem vonandi er ekki komin til að vera

Heimild: 641.is