Home Fréttir Í fréttum „Réttara væri kannski að líkja framkvæmdinni við að setja spítalann á hækjur,“

„Réttara væri kannski að líkja framkvæmdinni við að setja spítalann á hækjur,“

74
0
Drög að nýjum landspítala.

Réttara væri kannski að líkja framkvæmdinni við að setja spítalann á hækjur,“ skrifar Eymundur Sveinn Leifsson, verkfræðingur og ráðgjafi við spítalaverkefni í Noregi um fyrirhugaða byggingu nýs Landspítala við Hringbraut. Að hans mati er vel hægt að byggja nýjan spítala frá grunni á betri stað fyrir árið 2023.

<>

Eymundur skrifar um byggingu nýs spítala við Hringbraut í Fréttablaðið í dag, þar sem hann segir skýrt og skorinort:

„Ég er einn þeirra sem finnast þetta galin hugmynd. Það er að segja, hún er galin þegar hún er borin saman við það að byggja nýjan spítala frá grunni á besta mögulega stað. Mér finnst í raun Hringbrautarlausnin ætla að taka alveg ævintýralega langan tíma miðað við umfang og gæði lausnarinnar. Þegar uppi verður staðið mun Íslendingum hafa tekist að eyða 25 árum í skipulagningu og framkvæmd á plástrun Landspítalans. Réttara væri kannski að líkja framkvæmdinni við að setja spítalann á hækjur. Hann mun áfram ganga en þó ekki eins og best verður á kosið. Þetta er einfaldlega ekki ásættanlegt.“

Eymundur segist geta bent á ýmis rök með nýjum spítala „á besta stað“. Til að mynda kostnað til langs og skamms tíma, umferðarteppur, betri nýtingu á byggingarlóðinni á Hringbraut og svo framvegis. Þetta séu hins vegar einungis breytur í reiknistykki, en í þessu reiknistykki sé þó einn fasti sem oft gleymist í umræðunni – aðbúnaður sjúklinga og starfsmanna spítalans. Efast Eymundur um að nokkur maður láti sér detta í hug að Hringbrautarlausnin bjóði upp á jafn góðan aðbúnað fyrir sjúklinga og starfsmenn.

”Ég á nána vini, ættingja og kunningja sem vinna á spítalanum og ég hef rætt við ansi marga um þetta mál. Þeir sem styðja Hringbraut eiga það allir sameiginlegt að þeim finnst sú leið ekki besta lausnin. Aftur á móti eiga þeir það einnig sameiginlegt að búa við hálfgerða ofsahræðslu um að verði ákveðið að fara í staðarval og byggja nýtt muni það tefja málið um fjölda ára.“
Þetta er sorgleg staðreynd, segir verkfræðingurinn. Einfaldlega vegna þess að hún sýnir að trúin á að þjóðin nái að fylgja eftir stóru verkefni eins og byggingu nýs Landspítala innan skikkanlegs tímaramma er „akkúrat engin“.

Segir Eymundur að ef vilji sé til staðar megi auðveldlega reisa nýjan og glæsilegan spítala áður en árið 2023 gengur í garð. Bendir hann á að í Kalnes í Noregi hafi tekist að byggja nýjan spítala frá grunni á fimm árum. Sá spítali er umtalsvert stærri en samanlögð stærð áætlaðra viðbygginga við Landspítalann.

”Færum við þá leið af fullri alvöru er ég ekki bara þess fullviss að það muni koma betur við þjóðarbúskapinn heldur muni sú lausn pottþétt veita okkur besta möguleikann á fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu næstu áratugina. Ég get hreinlega ekki sætt mig við að það taki 10 ár héðan í frá að stoppa í götin á Hringbraut. Það er glórulaust miðað við gæði og umfang verkefnisins. Þess vegna skora ég á stjórnvöld að byggja besta spítalann á besta staðnum!

Heimild: Pressan.is