Home Fréttir Í fréttum Fermetraverð hefur hækkað um 23,1% frá árinu 2010 á Suðurlandi

Fermetraverð hefur hækkað um 23,1% frá árinu 2010 á Suðurlandi

98
0
Selfoss

Fermetraverð íbúða er hæst á höfuðborgarsvæðinu en það sem af er árinu 2015 var það um 315.000 kr. að meðaltali. Fermetrinn á Suðurlandi seldist á rúmar 163.000 kr. að meðaltali fyrstu þrjá fjórðunga ársins.

<>

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um íbúðamarkaðinn. Skýrslan var kynnt í menningarhúsinu Hofi á Akureyri..

Íbúðaverð á landsbyggðinni er töluvert lægra en dýrasti landshlutinn er Norðurland eystra þar sem fermetraverð er um 199 þús. kr. en sá ódýrasti er Vestfirðir þar sem fermetraverð er um 97 þús. kr.

Fermetrinn á Suðurlandi seldist á rúmar 163 þúsund krónur að meðaltali fyrstu þrjá fjórðunga ársins 2015 og hækkaði um 5,3% yfir sama tíma. Hefur fermetraverðið hækkað um 23,1% frá árinu 2010. Mestu fasteignaviðskiptin á Suðurlandi eiga sér stað á Selfossi og í Vestmannaeyjum.

Dýrustu fjölbýlin eru á Selfossi en þar seldist fermetrinn á um 177 þús. kr. á árinu 2014. Ódýrustu fjölbýlin eru á Höfn en þar seldist fermetrinn á 139 þús. kr.

Í Hveragerði er að finna dýrustu sérbýlin á Suðurlandi en þar seldist fermetrinn í sérbýlum á 167 þús. kr. á árinu 2014. Ódýrustu sérbýlin eru í Þorlákshöfn þar sem fermetrinn seldist á 131 þús. kr.

Ef gert er ráð fyrir sömu hækkun í dýrustu byggðakjörnunum og í landshlutanum í heild fyrir fyrstu þrjá fjórðunga ársins 2015 má gera ráð fyrir fermetraverði í kringum 186 þús. kr. að meðaltali fyrir fjölbýli og um 176 þús. kr. að meðaltali fyrir sérbýli á þeim svæðum um þessar mundir. Verðið í ódýrustu byggðakjörnunum er þá í kringum 138 þús. kr. með sömu nálgun.

Sé þróun á fermetraverði á Suðurlandi skoðuð eftir stærð íbúða sést að hæsta fermetraverðið er á íbúðum í stærðarflokknum 0-70 fermetrar eða um 195 þús. kr. og varð snörp hækkun á fermetraverði í þessum flokki á fyrstu þremur fjórðungum ársins 2015 eða sem nemur 19%. Ódýrasta fermetraverðið er, sem fyrr, í stærðarflokknum 210 fermetrar eða stærra en þar nam það að meðaltali um 131 þús. kr. á árinu 2015.

Heimild: Sunnlenska.is