Home Fréttir Í fréttum Unnið við krefjandi aðstæður

Unnið við krefjandi aðstæður

20
0
Ljósmynd/Landsvirkjun

Lands­virkj­un áform­ar útboð á verk­fram­kvæmd vegna upp­setn­ing­ar á hrun­varn­argirðing­um á Kára­hnjúk­um sum­arið 2022.

<>

Fram­kvæmd­in snýr að upp­setn­ingu á hrun­varn­argirðing­um til að hefta hrun grjóts úr Fremri-Kára­hnjúk. Þá er einnig tals­verð jarðvinna við að gera sker­ingu til að búa til stall (bermu) á bak við girðing­arn­ar til þjón­ustu á líf­tíma mann­virk­is­ins.

Verkið er enn í hönn­un og því liggja ekki all­ar for­send­ur þess fyr­ir enn sem komið er. Verkið verður hins veg­ar unnið við krefj­andi aðstæður, að því er fram kem­ur í frétt á heimasíðu Lands­virkj­un­ar.

Það verður unnið í mikl­um bratta og þar sem ekki er áætlaður aðkomu­slóði að upp­setn­ing­arstaðnum þarf að flytja aðföng að með krana eða þyrlu. Mik­il áhersla verður lögð á ör­ygg­is­mál. „Verkið mun því krefjast sér­hæfðrar þekk­ing­ar og verða kröf­ur útboðs í sam­ræmi við það,“ seg­ir í frétt­inni.

Skoðun­ar­ferð fyr­ir bjóðend­ur

Þar sem vetr­araðstæður á svæðinu eru krefj­andi er ein­ung­is mögu­legt að skoða verkstaðinn og kynna sér aðstæður að sumri eða hausti og því hef­ur Lands­virkj­un boðað til skoðun­ar­ferðar fyr­ir vænt­an­lega bjóðend­ur 28. sept­em­ber nk.

Vegna eðlis fram­kvæmd­ar­inn­ar og flækj­u­stigs henn­ar hvet­ur Lands­virkj­un bjóðend­ur ein­dregið til að mæta og skoða aðstæður á staðnum hafi þeir áhuga á að bjóða í verkið.

Miðað er við að útboðsgögn verði til­bú­in til af­hend­ing­ar fyr­ir lok árs 2021. Útboðið verður aug­lýst sér­stak­lega þegar gögn­in eru til­bú­in.

„Grjót­hrun hef­ur ekki verið vanda­mál vegna þess að gripið hef­ur verið til aðgerða til að koma í veg fyr­ir það og því hvorki menn né mann­virki í hættu,“ seg­ir Ragn­hild­ur Sverr­is­dótt­ir, upp­lýs­inga­full­trúi Lands­virkj­un­ar.

Verk­efnið núna snýst um að hemja og/​eða fanga laust grjót sem hryn­ur úr Fremri-Kára­hnjúk niður á aðkomu­veg að stíflu­mann­virkj­um.

Á fram­kvæmda­tím­an­um, þ.e. við bygg­ingu stíflu­mann­virkj­anna, voru sett­ar upp hrun­varn­argirðing­ar sem gegndu þessu hlut­verki, en þær eru nú komn­ar á tíma. Hrun sem þetta or­sak­ast af nátt­úru­leg­um aðstæðum, frost­sprengdu grjóti og rofi sem verður við leys­ing­ar.

Síðastliðið sum­ar og sum­arið 2017 voru starfs­menn sviss­neska verk­tak­ans Gass­er að störf­um fyr­ir aust­an, við að tryggja laust berg ofar í Kára­hnjúkn­um. Það var m.a. til að tryggja ör­yggi við það verk sem nú tek­ur við, þ.e. næsta sum­ar, sem er fyrst og fremst end­ur­nýj­un og um leið end­ur­hönn­un á hrun­varn­argirðing­um, seg­ir Ragn­hild­ur.

Girðing­arn­ar 150 metr­ar

Í verk­inu felst m.a. upp­setn­ing á um 150 lengd­ar­metr­um af hrun­varn­argirðing­um (5 metra háar) í sam­ræmi við kröf­ur og leiðbein­ing­ar fram­leiðanda ásamt allri tengdri jarðvinnu og und­ir­stöðuvinnu fyr­ir mann­virkið (steypt­ar und­ir­stöður, bor­un og berg­bolt­un o.fl.).

Jök­ulsá á Dal er stífluð við Fremri-Kára­hnjúk og er það jafn­framt lang­stærsta stífla Kára­hnjúka­virkj­un­ar. Stífl­an er 700 metra löng og 198 metra há. Hún er meðal hinna stærstu í heimi af þess­ari gerð.

Gerð henn­ar hófst árið 2002 og virkj­un­in var gang­sett 2007.

Heimild: Mbl.is