Home Fréttir Í fréttum Um 200 starfsmenn komið að hönnun nýja Landspítalans

Um 200 starfsmenn komið að hönnun nýja Landspítalans

127
0
Mynd: Nýr Landspítali/NLSH ohf. - Aðsend mynd

Framkvæmdastjóri nýja Landspítalans segir að þrátt fyrir ólíkar skoðanir séu allir þeir sem koma að framkvæmdum vissir um að vera á réttri leið. Reiknað er með að lyklarnir að sjúkrahúsinu verði afhentir eftir 5 til 6 ár.

<>

Gallar í hönnun nýs rannsóknahúss Landspítala er yfirskrift greinar sem fjórir læknar birtu í Morgunblaðinu í gær.

Þeir segjast hafa reynt án árangurs að vekja athygli á tveimur hönnunargöllum sem kunna að verða dýrkeyptir.

Annar þeirra snýr að vinnuumhverfi lækna því ekki sé gert ráð fyrir að sérfræðingar hafi skrifstofurými.

Hinn snýr að staðsetningu á þyrlupalli á þaki hússins sem gæti valdið slysum og truflunum í tækjabúnaði.

„Öll mannvirkin eru byggð á notendrastuddri hönnun sem hátt í 200 starfsmenn hafa komið að frá því að byrjað var á framkvæmdum, þar á meðal í rannsóknahúsinu,” segir Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri nýja Landspítalans.

Hann segir að stefnumörkun varðandi húsið byggi á körfum Landspítalans. „Síðan vinnum við þetta í samstarfi við innlenda og erlenda hönnuði. Niðurstaðan er sú sem við stefnum að. Við erum algjörlega samanburðarhæf við erlend nútímahús í Evrópu”.

Er gagnrýni læknanna ekki réttmæt”

„Þetta eru ólíkar skoðanir. Læknarnir fjórir vilja að vinnurýmin eigi að vera með öðrum hætti en eru að endurspeglast í húsinu. En þetta er stefnumörkun spítalans þannig að þetta snýr kannski innávið gagnvart Landspítalanum sjálfum. Það eru allir sem koma að verkefninu vissir um að vera á réttri leið.”

Gunnar segir að búið sé að afhenda sjúkrahótelið sem hefur verið í rekstri í tæp þrjú ár.

„Nú er uppsteypan á meðferðarkjarnanum á fullri ferð og við erum að byrja jarðvinnu við rannsóknahúsið. Nýlega var gerður samningur um bílastæða- og tæknihúsið og gatnagerðin er að miklu leyti búin. Verkefnið er allt að klárast miðað við þær forsendur sem lagt var upp með upp úr 2010.”

Hvenær verða lyklarnir síðan afhentir?

„Það gerist svona 2026 eða 27. Það fer auðvitað eftir því hvernig gengur og fjárveitingum frá Alþingi. Það eru allir að stefna í rétta átt”, segir framkvæmdastjóri nýja Landspítalans.

Heimild: Ruv.is