Home Fréttir Í fréttum Yfirlýsing frá eigendum FaktaBygg ehf. v/ byggingu raðhúsa á Húsavík

Yfirlýsing frá eigendum FaktaBygg ehf. v/ byggingu raðhúsa á Húsavík

304
0
Annað af tveimur raðhúsum sem FaktaBygg reisti fyrir Búsfesta á Húsavík. Mynd/epe

Í síðustu viku fjallaði Vikublaðið um byggingu tveggja raðhúsa á Húsavík, á vegum húsnæðissamvinnufélagsins Búfesti hsf.

<>

FaktaBygg ehf. var aðalverktaki verksins, þar til samningi var rift í byrjun síðustu viku.

Eigendur FaktaBygg ehf. harma að til þess hafi komið, en telja fyrri umfjöllun Vikublaðsins ekki gefa rétta mynd af málavöxtum og aðstæðum.

Bygging tveggja raðhúsa á Húsavík var þróunarverkefni Íbúðalánasjóðs og Norðurþings.

Húsnæðissamvinnufélagsið Búfesti hsf. gerðist aðili að verkefninu og að frumkvæði Búfesti varð FaktaBygg einnig aðili að verkefninu, enda vildi Búfesti reyna samvinnu við erlenda aðila og þannig auka samkeppni á verktakamarkaði til hagræðingar fyrir íslensk byggingarfélög til framtíðar litið.

MIKILVÆGAR FORSENDUR STÓÐUST EKKI

Verkskipting, tímaáætlun og ábyrgð á ólíkum verkþáttum var skilgreind áður en verkið hófst. Þrátt fyrir það kom upp ágreiningur vegna tjóns, sem varð vegna hönnunar annars vegar og verkframvindu hins vegar.

FaktaBygg hafnar því alfarið að bera eitt ábyrgð á því tjóni, og vill halda til haga nokkrum mikilvægum atriðum.

Verklok voru áætluð í febrúar/mars 2021, að því gefnu að Búfesti kláraði þrjá mikilvæga verkþætti á réttum tíma; 1) fjármögnun verksins, 2) samþykkt teikninga og 3) jarðvinnuframkvæmdir.

Ekkert af þessu gekk eftir og seinkun á verklokum var því óumflýjanleg.

BÚFESTI BER ÁBYRGÐ

Það er skoðun FaktaBygg, að Búfesti beri stóran hluta ábyrgðar á kostnaðarauka vegna jarðskjálftastyrkinga enda hafi félagið ekki uppfyllt skilyrði í verksamkomulagi.

Byggingarnar voru vissulega hannaðar af norskum verkfræðingum á vegum FaktaBygg, en Búfesti bar að láta íslenska hönnuði yfirfara norsku gögnin og byggingarstjóra Búfesti að skila gögnum til byggingaryfirvalda á tilsettum tíma.

Hvoru tveggja misfórst, sem varð til þess að tjónið varð margfalt meira en það ella hefði orðið.

VERKTAKAR TILBÚNIR AÐ GEFA EFTIR KRÖFUR

FaktaBygg gengst við sínum hluta ábyrgðarinnar, en telur sig ekki bera hana óskipta.

Félagið var reiðubúið til að taka á sig allt að 45 milljónir króna og aðrir verktakar að gefa eftir kröfur upp á allt að 15 milljónir króna.

Lausnin miðaðist við að Búfesti legði verkefninu til 18 milljónir króna, sem hlýtur að teljast sanngjarnt í ljósi aðstæðna. Því hafnaði Búfesti og rifti þess í stað verksamningi, sem að okkar mati er óréttmætt og til þess gert að komast hjá greiðslum fyrir vinnu sem þegar hefur verið unnin.

FaktaBygg ehf. mun leita réttar síns vegna þess, til að lágmarka tjón undirverktaka.

UNNIÐ AF FULLUM HEILINDUM OG ALLIR UPPLÝSTIR

Þegar vinnu við jarðskjálftastyrkingar var lokið og kostnaður lá fyrir um miðjan apríl tók FaktaBygg málið upp við Búfesti og upplýsti undirverktaka um stöðu mála.

Ítrekaðar tilraunir okkar til að semja um verklok hafa þó engu skilað og samningsvilji Búfesti hefur reynst lítill. Jafnframt hefur framkvæmdastjóri Búfesti ranglega haldið því fram, að félagið hafi greitt FaktaBygg samkvæmt greiðsluáætlun en peningar ekki skilað sér til verktaka.

Því er alfarið hafnað og FaktaBygg frábiður sér dylgjur um að undirverktakar séu skipulega hlunnfarnir. Hið rétta er, að Búfesti hefur ekki greitt fyrir framkvæmdirnar á réttum tíma og allar tekjur Fakta Bygg ehf. hafa farið beint í verkið.

Ekkert fé hefur verið tekið út úr félaginu og framkvæmdastjóri hefur aðeins þegið laun að litlu leyti. Það er sorglegt að annað sé gefið í skyn, beint og óbeint.

Ljóst má vera að framundan er málarekstur vegna óréttmætrar riftunar á verksamningi og vanefnda Búfesti.

Það er afdráttarlaust markmið FaktaBygg að sækja rétt sinn, svo félagið geti staðið við allar skuldbindingar gagnvart samstarfsaðilum sínum.

Fakta Bygg mun ekki opinberlega gera frekari grein fyrir sínum sjónarmiðum á meðan á málarekstri stendur og biðjum við um skilning á því.

Virðingarfyllst, Kristján Eymundsson Árni G. Árnason

Heimild: Vikudagur.is