„Við stefnum á að halda ótrauð áfram enda er búið að setja ákveðið fjármagn í þetta.
Okkar vandræði hér fyrir austan eru að það vantar fleiri verktaka,“ segir Karl Lauritzson, formaður byggingarnefndar menningarhúss á Egilsstöðum.
Breyta hefur þurft áformum við uppbyggingu menningarhússins vegna þess að erfiðlega hefur gengið að fá verktaka til að taka vinnuna að sér.
Samið var um verkefnið við stjórnvöld fyrir rúmum þremur árum og felst í því uppbygging í Sláturhúsinu á Egilsstöðum sem og endurbætur á Safnahúsinu þar í bæ.
Halda ótrauð áfram
Mikill uppgangur er í landsfjórðungnum og nefnir Karl að framkvæmdir við leikskóla, stórtæk áform Jims Ratcliffes í Vopnafirði og vinna við stækkun fiskimjölsverksmiðju og löndunarhúss Síldarvinnslunnar í Neskaupstað eigi allan hug verktaka.
Ekkert tilboð barst í útboði á smíði nýrrar brúar yfir Gilsá á Völlum á dögunum og skoðar Vegagerðin nú að skipta útboðinu upp.
Karl segir að áformin við menningarhús gangi vel þrátt fyrir hnökra vegna manneklu. „Við einbeittum okkur að Sláturhúsinu fyrst.
Öll hönnunarvinna er búin og við ákváðum að bjóða út einstaka hluta verksins til að smærri verktakar gætu tekið þá að sér. Aðrir virðast ofsetnir í verkefnum,“ segir hann.
Unnið hefur verið að niðurrifi í tímavinnu og búið er að bjóða út verkhluta er snýr að klæðningu á húsinu að utanverðu.
Þá er verið að birta útboðsgögn fyrir einstaka verkhluta innandyra sem vinna á næsta vetur. Segir Karl að raunhæft sé að húsið verði klárað á næsta ári.
Til stendur að reisa nýja burst við Safnahúsið á Egilsstöðum ofan á grunn og kjallara sem þegar hefur verið steyptur.
Segir Karl að byggingarnefnd hafi fundað með forstöðumönnum safnanna þriggja í húsinu og gert þarfagreiningu að því loknu. Nú taki við hönnunarvinna.
Heimild: Mbl.is