Fjölgunin mun halda áfram
Sveitarfélagið Hörgársveit varð til 2010 við sameiningu Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar. Hörgársveit er næsta sveitarfélag norðan Akureyrar.
Þar búa nú tæplega 700 manns og hefur fjölgað um 100 íbúa á rúmlega tveimur árum. 3Mest munar um uppbyggingu við Lónsbakka.
Mikið hefur verið byggt af nýju íbúðarhúsnæði og enn er verið að byggja. Þegar lokið verður við að byggja á þeim lóðum sem eru á skipulagi, hefur íbúðum fjölgað um 111 frá árinu 2019.
Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri í Hörgársveit, segir að gera megi ráð fyrir enn frekari uppbyggingu.
„Við erum búin að úthluta öllum þessum lóðum og við erum aðeins farin að huga að því að fjölga lóðum þarna á svæðinu,“ segir Snorri.
Á næstu árum telur Snorri ekki ólíklegt að íbúafjöldi verði kominn að 1000 manna viðmiðinu.
Það sé ekki eingöngu verið að byggja við Lónsbakka heldur er líka að byggjast upp einbýlishúsahverfi í Glæsibæ sem heitir Hagabyggð.
Þar sé búið að selja 13 lóðir og einhverjar framkvæmdir hafnar, t.d. við gatnagerð.
Víðfeðmt sveitarfélag
Sveitarfélagið er nokkuð víðfeðmt þó að nýbyggingarnar séu langflestar við Lónsbakka rétt utan við Akureyri. Grunnskólabörnum er því flestum ekið með skólabíl í skólann sem er á Þelamörk.
Skólahúsnæðið er stórt og býður upp á að hægt sé að taka móti mun fleiri börnum en nú er gert. Leikskólabörnum hefur fjölgað mikið á leikskólanum við Lónsbakka og hefur þurft að stækka leikskólahúsnæðið tvisvar sinnum.
Snorri segir að Hörgársveit sjái um mikið af grunnþjónustu fyrir íbúa sveitarfélagsins.
„Við sinnum öllu því sem sveitarfélögum er ætlað að gera þó við séum í mörgum hlutum að gera það í samvinnu við aðra
og það á náttúrlega við sveitarfélögin öll hér á svæðinu.
Samnýting á þjónustu
Akureyri er steinsnar frá byggðinni við Lónsbakka. Snorri telur ekki óeðlilegt að íbúar Hörgársveitar nýti sér þjónustu á Akureyri og telur báða aðila hagnast á íbúafjölguninni. Snorri segir samnýtingu milli sveitarfélaga ekki bundna við þau minni.
„Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru nú aldeilis ekki lítil og þau eru öll í einhverri samvinnu. Það er ekkert einsdæmi að samvinna sé á svæðinu.“
Heimild: Ruv.is