Home Fréttir Í fréttum Mikil eftirspurn eftir lóðum í Varmahlíð

Mikil eftirspurn eftir lóðum í Varmahlíð

159
0
Mynd: Skagafjordur.is - RÚV
Gripið var til þess ráðs að hraða gerð deiliskipulags í Varmahlíð til að koma til móts við aukinn áhuga á lóðum í þorpinu.
Til stendur að bjóða upp á um 30 nýjar lóðir en sveitarstjóri í Skagafirði segir að með þessum fjölda lóða sé horft til framtíðar.

Nýtilkominn áhugi á lóðum

Í Varmahlíð búa nú um 130 manns. Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri sveitarfélagsins Skagafjarðar segir að áhugi á lóðum fyrir nýbyggingar sé nokkuð nýtilkominn en hann sé mikill.

<>

„Þær lausu lóðir sem við höfum haft til umráða, það hefur verið slegist um þær og það er aukinn áhugi á að byggja í Varmahlíð og við viljum gjarnan mæta þessari eftirspurn með því að fjölga lóðum og erum í deiliskipulagsvinnu í því skyni,“ segir Sigfús.

30 lóðir ætlaðar undir byggingar

Stefnt er að því að hægt verði að úthluta nokkrum lóðum á komandi hausti. Markmiðið er að hægt verði að byggja á næstu árum á 30 lóðum.

Sigfús á ekki von á að allar lóðirnar seljist á einu bretti en sveitarfélagið vilji vera í stakk búið til að mæta aukinni eftirspurn.

Áhuginn ætti ekki að koma á óvart

Nokkur íbúafjölgun virðist því ætla að verða í Varmahlíð næstu ár. Til að standa undir þeim breytingum verður ráðist í gagngerar endurbætur á skólahúsnæði þorpsins.

Sigfús segir að það sé gott að búa í Varmahlíð og því ætti þessi áhugi ekki að koma á óvart.

„Þetta er góður þéttbýlisstaður með mikilli þjónustu og svo er stutt í atvinnu bæði þar á staðnum og víðar í firðinum. Samgöngur eru þar góðar, þetta er vel í sveit sett,“ segir Sigfús.

Heimild: Ruv.is