Home Fréttir Í fréttum Endurbætur eftir vatnstjónið í HÍ ekki enn hafnar

Endurbætur eftir vatnstjónið í HÍ ekki enn hafnar

77
0
Mynd: RÚV
Ekki hefur enn verið ráðist í endurbætur á þeim rýmum Háskóla Íslands sem urðu fyrir tjóni í vatnsleka sem varð í húsnæði skólans í byrjun árs.
Matsskýrslu er enn beðið en án hennar verður ekki ráðist í verkið.

Rýmin enn ónothæf

Mikið tjón varð á rýmum Háskóla Íslands þegar gömul kaldavatnsleiðsla Veitna við Suðurgötu gaf sig í byrjun árs.

<>

Um tvö þúsund tonn af vatni flæddu inn í byggingar skólans og ollu miklum skemmdum.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir að endurbætur á rýmunum séu ekki enn hafnar og því ekki hægt að nýta þau í haust.

„Við erum enn að bíða eftir skýrslu um mat á tjóninu sem varð vegna flóðsins.

Á meðan við höfum ekki þessa skýrslu þá höfum við hreinlega ekki getað farið í þær endurbætur sem þarf en við vonumst til að fá hana mjög fljótlega til þess að við getum brugðist við.

Síðan þurfa aðilar málsins að ræða saman en þetta er staðan og hún þýðir að við getum ekki nýtt þessi kennslurými núna fyrir haustið, “ segir Jón Atli.

Önnur kennslurými til skoðunar

Stjórnendur Háskóla Íslands kanna nú þegar önnur möguleg kennslurými, innan sem utan háskólans, en nemendur mæta aftur til skóla um miðjan ágústmánuð.

Jón Atli segir stöðuna vonbrigði en er þó fullviss um að málið verði leyst fyrir haustmisserið.

„Við erum bæði að skoða möguleika innan háskólans og utan og við teljum okkur geta leyst þetta fyrir kennslu haustmisserisins. Og ég held að þetta líti nokkuð vel út.

Það eru gríðarleg vonbrigði samt að það hafi tekið þetta langan tíma að ráðast í endurbætur á Háskólatorgi og í Gimli, “ segir Jón Atli.

Núverandi sóttvarnaraðgerðir hefðu áhrif á skólastarf

Þá ríkir nokkur óvissa um haustið í í ljósi nýrra takmarkana sem tóku gildi um helgina, en þær gilda að óbreyttu til 13.ágúst.

Skólastarf Háskóla Íslands hefst að nýju um miðjan ágústmánuð og ljóst að núverandi samkomutakmarkanir og fjarlægðarreglur hefðu áhrif á starfið.

Jón Atli segir skólann bíða eftir fyrirmælum yfirvalda áður en hægt verði að segja til um fyrirkomulag kennslu í haust.

„Við erum bara á varðbergi og bíðum eftir leiðbeiningum frá stjórnvöldum og menntamálayfirvöldum.

Miðað við eins og staðan er núna,  eins metra regla og 200 manna samkomutakmarkanir þá hefði það tvímælalaust áhrif á staðkennslu.

En kennslan hjá okkur hefst ekki fyrr en eftir miðjan ágúst  þannig það getur ýmislegt breyst fram að því.

Við erum bara á varðbergi og erum alveg reiðubúin í það verkefni, “ sagði Jón Atli í samtali við fréttastofu.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. Mynd: RÚV – Vilhjálmur Þór Guðmun – RÚV

Heimild: Ruv.is