Einhver mesta uppbygging í sögu Öxarfjarðar fer nú fram við Kópasker. Þar er risin 2.400 fermetra bygging sem fullyrt er að sé stærsta hús í sögu héraðsins.
Frá því síðastliðið haust hafa milli þrjátíu og fjörutíu manns unnið að uppbyggingunni og allt upp í fimmtíu manns, þegar mest hefur gengið á. Að framkvæmdinni stendur fyrirtækið Rifós sem er í eigu Fiskeldis Austfjarða.
„Hér er verið að byggja stórseiðastöð fyrir laxaseiði,“ sagði Fannar Helgi Þorvaldsson, framkvæmdastjóri Rifóss, í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2.
Seiðin verði síðan flutt til áframeldis í sjókvíum austur á fjörðum.
Ef áform fyrirtækisins ganga eftir er þetta bara byrjunin.
„Vonandi fáum við leyfi til þess að byggja hér fjögur hús. Þannig að hugmyndirnar eru miklar.“
-Hvað mun þetta veita mörgum störf þegar þetta verður allt komið í gang?
„Við reiknum með tuttugu starfsmönnum hérna. Við erum þegar búnir að ráða sex til að vinna hér í þessu húsi,“ svarar Fannar.
Hann segir góðar aðstæður á Kópaskeri fyrir þessa starfsemi.
„Hér er þetta náttúrlega byggt út af þessum heita sjó sem er hérna. Þannig að þetta eru kjöraðstæður fyrir stórseiðaeldi.“
Starfsemin er þegar hafin, vatn er komið í fyrstu kerin.
„Og fyrstu prufuseiðin mætt. Lítur allt mjög vel út,“ segir Fannar.
Heimild: Visir.is