Home Í fréttum Niðurstöður útboða Verktakar börðust hart um að fá að breikka Lögbergsbrekku

Verktakar börðust hart um að fá að breikka Lögbergsbrekku

516
0
Svona mun vegurinn líta út ofan Lögbergsbrekku að lokinni tvöföldun milli Fossvalla og Gunnarshólma. VEGAGERÐIN

Vegagerðinni bárust fjögur tilboð í tvöföldun Suðurlandsvegar á 3,3 kílómetra kafla um Lögbergsbrekku í útjaðri Reykjavíkur en tilboð voru opnuð í dag.

<>

Þrjú þeirra reyndust undir 937 milljóna króna kostnaðaráætlun.

Það lægsta kom frá Jarðvali sf. í Kópavogi, upp á 791 milljón króna, sem var 84,5 prósent af áætluðum verktakakostnaði.

Tilboðin bera með sér að verktakar voru tilbúnir að leggja hart að sér til að hreppa þetta stóra verk. Lægsta boðið var þannig 145 milljónum króna undir kostnaðaráætlun, næstlægsta boð 120 millljónum undir og þriðja lægsta boð 115 milljónum undir áætlun.

Næstlægsta boð kom frá Suðurverki hf. og Loftorku Reykjavík ehf., Kópavogi, upp á 816 milljónir króna, eða 87,1 prósent af kostnaðaráætlun.

Þriðja lægsta boð átti Óskatak ehf., Kópavogi, upp á 822 milljónir króna, eða 87,7 af kostnaðaráætlun.

Hæsta boðið og það eina yfir kostnaðaráætlun kom frá Ístaki hf. í Mosfellsbæ. Það hljóðaði upp á 1.038 milljónir króna, eða 247 milljónum hærra en lægsta boð.

Lögbergsbrekkan verður 2+2 vegur með aðskildum akreinum.
VEGAGERÐIN

Vegagerðin ætlast til að verkið verði unnið hratt og skammtar nauman verktíma. Þannig skal verkinu að fullu lokið 31. mars 2022.

Vart er að búast við að verksamningar verði klárir fyrr en um miðjan ágústmánuð. Miðað við þá forsendu má ætla að vinnan geti hafist í kringum mánaðamótin ágúst-september. Verktakinn hefði þá sjö mánuði til að ljúka verkinu.

Heimild: Visir.is