Vegagerðin hefur í nógu um að snúast þessa dagana eftir að hættustigi vegna vatnavaxta var aflétt. Hamfaraflóð í Fnjóská og Þverá, eftir miklar leysingar í hitabylgjunni að norðan, sleit í sundur vegi á nokkrum stöðum.
Gunnar H. Guðmundsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Akureyri, segir verkefni næstu vikna verða á tveimur stöðum, hins vegar í Fnjóskadal og annars vegar á Eyjafjarðarbraut eystri hjá Akureyri.
Í Fnjóskadal fór vegur í sundur á tveimur stöðum sunnan við Illugastaði. Vegagerðin þarf að keyra grjót af Fljótsheiði um 25 til 30 kílómetra til að fylla í skörðin.
„Menn eru með góð tök á þessu. Sú aðgerð klárast fljótlega en stór hluti viðgerða verða í næstu viku,“ segir Gunnar.

Vegurinn yfir Þverá á Eyjafjarðarbraut eystri, sunnan Akureyrar, stórskemmdist vegna mikils straumþunga árinnar sem gróf undan veginum við ræsið sem áin rennur í gegnum.
Vegagerðin þarf að athuga undirstöðurnar en á meðan verður allri umferð beint yfir gamla brú yfir Þverá. Allstærstu og þyngstu farartækin geta þó ekki farið yfir brúna.

„Við þurfum að grafa frá þessum stutta stokki og hleypa vatninu framhjá til þess að átta okkur á hvernig ástandið er inni í honum, hvort það hefur runnið undan undirstöðum og annað í þeim dúr.
Framtíðin mun leiða í ljós hvort að það þurfi að steypa upp eða annað. Hjáleiðin verður sennilega viðvarandi í hálfan mánuð eða þrjár vikur. Þetta er mikil fylling ofan á þennan steypta stokk og þegar svona gerist þá tekur það tíma að lagfæra.“

Heimild: Frettablaðið.is