Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Yfir 18 þúsund tonn af malbiki á Egilsstaðaflugvöll

Yfir 18 þúsund tonn af malbiki á Egilsstaðaflugvöll

391
0
Mynd: Nikulás Bragason - ISAVIA

Stórfelldar endurbætur hófust á Egilsstaðaflugvelli í morgun. Áætlað er að malbikun og önnur tengd verk kosti 1,4 milljarða og geta einungis minni vélar Icelandair geta lent á vellinum meðan á framkvæmdum stendur.

<>

Flugbrautin á Egilsstaðaflugvelli er 2000 metra löng og 45 metra breið. Verður hún öll malbikuð ásamt öxlum og akbrautum næstu vikurnar, samtals yfir 131 þúsund fermetrar. Í þetta þarf yfir 18 þúsund tonn af malbiki.

Sett var upp sérstök malbikunarstöð á Selhöfða og er heitu malbikinu ekið á bílum inn á flugvöll. Þar er lagt út 5 sentimetra þykkt lag ofan á eldra malbik.

Ásgeir Rúnar Harðarson, flugvallastjóri ISAVIA á Egilsstaðaflugvelli, segir snúið að malbika flugvöll í fullri notkun. „Jú, það er margt sem þarf að huga að og er fyllsta öryggis gætt í öllu.

Starfsmenn ISAVIA hafa verið að vinna að því í allan vetur að undirbúa þetta verk. Á framkvæmdatíma þá erum við búin að stytta flugbrautina. Við erum með þúsund metra braut í notkun og þúsund metra þá undir framkvæmdasvæði.

Við takmörkum okkur við áætlunarflug og þá minni flugvél Icelandair, Q200 vélina, á framkvæmdatíma og sjúkra- og neyðarflug,” segir Ásgeir.

Flugbrautin verður malbikuð í þrennu lagi; fyrst suðurendinn næst flugstöðinni. Á meðan verður tímabundin akbraut í gegnum framkvæmdasvæðið og fylgdarbíll fylgir vélum heim í stæði.

Næst verður lagt á miðhlutann og verður völlurinn lokaður í 17-20 klukkutíma meðan á þeirri vinnu stendur. Að lokum verður svo norðurendinn malbikaður. „Við áætlum að þessu verði lokið um mánaðamótin júlí-ágúst ef allt gengur vel en framkvæmdin er vissulega háð veðri.

Ég vil þakka samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Alþingi fyrir að fara í þessa brýnu framkvæmd,“ segir Ásgeir Rúnar Harðarson, flugvallastjóri ISAVIA á Egilsstaðaflugvelli.

Heimild: Ruv.is