Home Fréttir Í fréttum Niðurrifi fjölbýlishúss í Flórída flýtt

Niðurrifi fjölbýlishúss í Flórída flýtt

56
0
Mynd: EPA-EFE - EPA
Niðurrifi fjölbýlishússins sem hrundi að hluta í Flórída í síðasta mánuði verður flýtt til þess að tryggja öryggi leitar- og björgunarfólks. Kröpp hitabeltislægð stefnir yfir ríkið á næstu dögum, og óttast yfirvöld að húsið gæti hrunið í hviðum.

Tvö lík fundust í rústunum í gær, og hafa nú 24 fundist látnir eftir að húsið hrundi þann 24. júní. 124 er enn saknað, að sögn fréttastofu BBC.

<>

Yfirvöld rannsaka nú fleiri fjölbýlishús í ríkinu sem byggð voru á svipuðum tíma. Tíu hæða blokk var rýmd á föstudag eftir að í ljós kom að hún hafið verið metin ótrygg til búsetu fyrir nokkrum mánuðum.

Ríkisstjóri Flórída, Ron DeSantis, sagði niðurrifið eiga að tryggja öryggi leitarfólks. Ómögulegt sé að vita hvenær sá hluti sem eftir stendur hrynur, og komandi vindhviður auki aðeins hættuna á hruni.

Daniella Cava Levine, borgarstjóri Miami-Dade, undirritaði skipun um niðurrif byggingarinnar á föstudag, en sagðist þó ekki búast við því að hún yrði tekin niður fyrr en seint í júlí.

Heimild: Ruv.is