Uppfærð kostnaðaráætlun við gerð leikskóla í Safamýri er 74 prósentum hærri en upphafleg áætlun. Skólinn átti að kosta 433 milljónir króna, en upphæðin stefnir í 752 milljónir.
Aukinn kostnaður er aðallega sagður vera vegna nauðsynlegra aðgerða til að bregðast við rakaskemmdum og byggingargalla. Þá uppfyllti húsnæðið ekki kröfur um bruna-, öryggis- og aðgengismál.
Hreinsa þarf alla útveggi að innan og einangra og klæða þá að utan, sökum rakaskemmda og óheppilegrar uppbyggingar og frágangs að innan. Endurnýja þarf þak sökum rakaskemmda og burðargrindur veggja eru gerðar af vanefnum. Þarf að endurnýja allar lagnir.
Þá er ekki hagkvæmt að halda í núverandi eldhús og búnað þess og engin salerni var hægt að nýta án verulegra breytinga. Þá reyndist flóknara að endurnýja ónýtar frárennslislagnir en reiknað var með.
Umfangsmiklar rakaskemmdir komu í ljós í hönnunar- og niðurrifsfasa verkefnisins.
Vigdís Hauksdóttir segir í bókun sinni fyrir Miðflokkinn að málið sé enn eitt fjármálaklúðrið í borginni. „Það sjá allir að kostnaðargreiningar og fjárhagslegt framkvæmdamat er í molum hjá þeim sem stjórna borginni,“ bókaði Vigdís
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sögðu að borgin hefði ekki farið í verkefnið ef fjárhagsáætlun hefði verið rétt.
Heimild: Frettabladid.is