Vegagerðin hefur boðið út tvöföldun Suðurlandsvegar á þriggja kílómetra kafla um Lögbergsbrekku í útjaðri Reykjavíkur. Verkinu á að vera að fullu lokið fyrir næsta vor.
Suðurlandsvegur næst Reykjavík er einn fjölfarnasti þjóðvegur landsins og aðeins með eina akrein í hvora átt á tíu kílómetra löngum kafla milli Rauðavatns og Fossvalla, ef frá er talin klifurrein í Lögbergsbrekku. Þá eru akreinar á þessum kafla ekki aðskildar með vegriði né umferðareyju.
En núna er komið að því að bæta úr. Vegagerðin hefur boðið út breikkun vegarins ofan Gunnarshólma. Útboðið er auglýst á evrópska efnahagssvæðinu og rennur tilboðsfrestur út eftir tvær vikur.
„Þetta er verkefni sem við skiptum í tvo hluta og tökum núna 3,3 kílómetra af þessum vegi,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri í viðtali í fréttum Stöðvar 2.
Í verkinu felst einnig að gera undirgöng fyrir hestamenn sem og hliðarvegi til að fækka gatnamótum. Þessum áfanga á að skila fullbúnum fyrir 1. apríl næsta vor.
„Og við höldum áfram með þetta verk væntanlega á næsta ári,“ segir Bergþóra.
Í fyrra var kafli Suðurlandsvegar frá Vesturlandsvegi að Hádegismóum tvöfaldaður. En hvenær verður svo haldið verði áfram að breikka næst Reykjavík, kaflann meðfram Rauðavatni?
„Ja, við erum ekki alveg komin þangað. Það er verið að vinna þann kafla, hann er í umhverfismati. Þannig að það er verið að skoða það mál allt saman. Þannig að þetta kemur svona, bit af bita,“ svarar vegamálastjóri.
Heimild: Visir.is