Home Fréttir Í fréttum Ákveðið hefur verið að ráðast í framkvæmdir til að stækka höfnina í...

Ákveðið hefur verið að ráðast í framkvæmdir til að stækka höfnina í Norðurfirði

110
0
Mynd: nordurfjordur.is
Ákveðið hefur verið að ráðast í framkvæmdir til að stækka höfnina í Norðurfirði. Verktakafyrirtækið Tígur í Súðavík tekur að sér verkið og áætlað er að kostnaður hlaupi á um 23 milljónum.

Árneshreppur mun fjármagna verkefnið að hluta og er áætlað að framkvæmdir hefjist síðar í þessum mánuði. Eva Sigurbjörnsdóttir, hreppstjóri í Árneshreppi, telur að með stækkun hafnarinnar muni fleiri smábátaeigendur sjá hag sinn í því að gera út frá Norðurfirði, þaðan sem stutt er á miðin. „Það myndi auka getu hafnarinnar til að taka á móti bátum, bæði strandveiðibátum og kvótabátum. Það getur ekki verið nema til góðs af því að þetta hefur náttúrlega alltaf samverkandi áhrif á aðra hluti eins og verslun eða önnur viðskipti, flutningsgetu til og frá sveitinni þannig að þetta er bara af hinu góða.“

<>

Árneshreppur er fámennur hreppur og liggur við strandveiðasvæði B. Til að veiða á því svæði þá þarf heimilisfesti útgerðaraðila viðkomandi báts að vera skráð við svæðið. Nokkurt hlutfall þeirra sem gera út frá Norðurfirði eru með heimilisfesti utan Árneshrepps en þó við svæði B. Því er ljóst að hreppurinn verður þar af talsverðum útsvarstekjum. Þrátt fyrir það, og takmarkaðan kvóta á svæðinu, telur Eva að góðar tekjur muni skapast af aflagjöldum, löndun, leguplássi, ísingu afla, kranagjöldum og annari þjónustu. Hún telur að við höfnina gætu skapast tvö til þrjú störf.

Heimild: Rúv.is