Home Fréttir Í fréttum Varnargarðarnir kosti minna en tíu milljónir

Varnargarðarnir kosti minna en tíu milljónir

169
0
Mynd: RÚV / Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Ari Guðmundsson, byggingarverkfræðingur sem stýrir framkvæmdum við varnargarða á gosstöðvunum segir að áætlað sé að garðarnir kosti minna en tíu milljónir, stefnt er að því að klára verkið í dag eða á morgun.

Vestari varnargarðurinn er tilbúinn og sá sem er austan megin er orðinn tveir af fjórum metrum. „Það hefur gengið mjög vel.

<>

Verktakar hófu vinnu aftur í morgun og eru að vinna í eystri varnargarðinum, sá er um það bil hálfnaður núna og fer mjög langt í dag.“

Þegar fréttastofa var á ferð um gosstöðvarnar síðdegis í gær var hraun farið að hrannast upp aftan við neyðarruðning sem var ýtt upp við hraunið í skarðinu vestan megin.  „Við sjáum ekki neina breytingu austan megin.

Við sjáum breytingu vestan megin, þar er  þrýstingur aftan á bak við neyðarruðningana og einstaka steinar farnir að velta yfir neyðarruðninginn.“

Neyðarruðningurinn er aðeins framan við varnargarðinn sjálfan og því er ekki farið að reyna á hann eins og sést á myndskeiðinu sem fylgir fréttinni.

Tilgangurinn með görðunum er að verja Nátthaga, renni hraunið þangað á það nokkra kílómetra í Suðurstrandaveg.

Ari segir að það sé ekki búið að taka alveg saman kostnaðinn við framkvæmdina. „Við höfum áætlað að þetta sé minna en tíu milljónir,“ segir Ari.

„Það er ekki alveg búið að taka saman kostnað en þetta er auðvitað mun minna en það sem myndi skaða [ef hraunið færi yfir] Suðurstrandaveginn.“

Heimild: Ruv.is