Home Fréttir Í fréttum Fyrsta skóflustungan að nýrri mosku líklega tekin á árinu

Fyrsta skóflustungan að nýrri mosku líklega tekin á árinu

100
0

Formaður félags múslima á Íslandi, Ibrahim Sverrir Agnarsson, segir að vinningstillaga úr arkitektasamkeppni um nýja mosku verði tilkynnt í lok vikunnar. Félag múslima á Íslandi fékk úthlutaða lóð undir moskuna árið 2013 í Sogamýri í Reykjavík. Fyrirhuguð bygging moskunnar hefur verið afar umdeild, og má meðal annars nefna hóp á Facebook þar sem þúsundir mótmæla slíkri byggingu. Á móti kemur að fleiri hafa lýsti yfir stuðningi við moskuna.

<>

„Það voru 63 sem sendu inn tillögur til arkitektafélagsins,“ segir Ibrahim Sverrir og bætir við að nú sé dómnefnd að vinna í því að velja úr tíu tillögum sem þykja bestar.

„Við vonumst svo til að taka fyrstu skóflustunguna, í það minnsta út frá táknrænum forsendum, áður en árið er liðið,“ segir Ibrahim Sverrir. Fram kom í samtalinu að moskan verði 800 fermetra. „Það ætti að duga í bili,“ segir hann en gert er ráð fyrir að tvöhundruð manns geti nýtt húsið til bæna.

Þegar blaðamaður bar umdeilda könnun Útvarps Sögu undir formanninn, þar sem hlustendur voru spurðir hvort þeir „treystu múslimum“ svaraði Ibrahim Sverrir því til að spurningin væri beinlínis glórulaus.

„Múslimar eru einn og hálfur milljarður og flóran á meðal múslima er gífurleg,“ útskýrði hann og bætti við: „Þetta er svipað og að spyrja hvort maður treysti gyðingum. Eða bara leigubílstjórum.“

Yfir 4000 manns tóku þátt í könnun Útvarps Sögu en um 1700 svara því til að þeir treysti ekki múslimum. Ibrahim Sverrir segir að sú tala komi sér á óvart, „ég hélt að það væru fleiri,“ segir hann og bendir á að um fjögur þúsund manns eru í hóp sem er andvígur því að moska rísi í Reykjavík.

Spurður hvort múslimar á Íslandi séu ekki orðnir langþreyttir á þessari umræðu, svarar Ibrahim Sverrir því til að fordómarnir hafi skánað með árunum. Þannig nefnir hann samhug sem almenningur sýndi í kringum flóttamannamálin, „en ég held að það sé alltaf ákveðinn hópur sem er undir meðalgreind sem hatast við allt og alla.“

Spurður hvort hann óttist að stjórnmálaafl rísi sem rói á rasísk mið fyrir næstu alþingiskosningar, svarar Ibrahim því að Framsókn og flugvallarvinir hafi daðrað við þetta fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. „Þar fengu þau um 12%. Ætli tölfræðin sé ekki einhverstaðar þar. Og líklega þurfum við bara að lifa með því,“ bætir hann við.

Ibrahim segir að félagið muni ekki amast við málflutning Útvarps Sögu þegar hann er spurður hvor það komi til greina að kæra stöðina fyrir hatursáróður, en Egill Helgason, fjölmiðlamaður, velti því fyrir sér um helgina, hvort þarna sé hatursáróður á ferð. En í fjölmiðlalögum segir orðrétt:

„Fjölmiðlum er óheimilt að hvetja til refsiverðrar háttsemi. Einnig er þeim óheimilt að kynda með markvissum hætti undir hatri á grundvelli kynþáttar, kynferðis, kynhneigðar, trúarskoðana, þjóðernis eða menningarlegrar, efnahagslegrar, félagslegrar eða annarrar stöðu í samfélaginu.“

Ibrahim segir tjáningafrelsið hornstein lýðræðisins, „og svo er Útvarp Saga löngu búin að stimpla sig út úr allri vitrænni umræðu hvort eð er,“ bætir hann við.

 

Heimild: Dv.is