Home Fréttir Í fréttum Borútboð fyrir annan áfanga Þeistareykjavirkjunar auglýst á næstu vikum

Borútboð fyrir annan áfanga Þeistareykjavirkjunar auglýst á næstu vikum

73
0
Mynd: Landsvirkjun

Borútboð fyrir annan áfanga Þeistareykjavirkjunar verður auglýst á næstu vikum. Um er að ræða borun á allt að 8 vinnsluholum á núverandi vinnslusvæði.

<>

 

Varfærin uppbygging tryggir sjálfbæra jarðvarmavinnslu

Unnið hefur verið að undirbúningi jarðvarmavirkjunar við Þeistareyki til fjölda ára. Öll leyfi fyrir allt að 100 MW virkjun á Þeistareykjum eru til staðar og mat á umhverfisáhrifum fyrir 200 MW virkjun liggur fyrir með jákvæðu áliti Skipulagsstofnunar. Stefna Landsvirkjunar hefur frá upphafi miðað við varfærna uppbyggingu sjálfbærrar jarðvarmavinnslu í áföngum.

Framkvæmdir við fyrsta áfanga Þeistareykjavirkjunar (45 MW) hófust á vormánuðum með uppbyggingu stöðvarhúss fyrir tvær aflvélar og lagningu gufuveitu.

Framkvæmdir hafa gengið vel en verktaki við framkvæmdir er íslenska verktakafyrirtækið LNS Saga. Stefnt er að því að rekstur hefjist í fyrsta áfanga virkjunarinnar haustið 2017.

Aflprófanir styðja áætlanir um aukna orkuvinnslu

Á liðnum vetri fóru fram umfangsmiklar aflprófanir á Þeistareykjasvæðinu til að sannreyna aflgetu þess og meta möguleg áhrif gufunýtingarinnar á jarðhitasvæðið.

Allar borholur voru látnar blása á fullum afköstum frá því í nóvember 2014 til loka júnímánaðar 2015. Mat sérfræðinga á niðurstöðum aflprófana og líkanreikninga er að svæðið stendur fyllilega undir 90 MW orkuvinnslu til lengri tíma. Þessi niðurstaða styður þannig við áframhaldandi varfærna uppbyggingu á Þeistareykjum.

Undirbúningsvinna við 2. áfanga hafin

Í samræmi við niðurstöður aflprófana er nú hafinn undirbúningur að 2. áfanga Þeistareykjavirkjunar (45 MW).  Horft er til þess að aflvél 2 gæti komið í rekstur á árinu 2018 og virkjunin skili þá samtals 90 MW afli. Þegar hafa verið boraðar átta vinnsluholur, sem skila gufu sem jafngildir um 60 MW rafafli, eða ríflega einni aflvél, en ljóst er að ráðast þarf í boranir til að mæta frekari orkuvinnslu.

Samhliða útboði á borunum verður unnið að öðrum útboðum vegna kaupa á búnaði til virkjunarinnar sem og útvíkkun gildandi samninga um kaup á viðbótarbúnaði fyrir 2. áfanga. Með uppbyggingu á 2. áfanga virkjunarinnar er Landsvirkjun að mæta aukinni orkuþörf á Norðausturlandi og annars staðar á landinu, en einnig að auka til muna öryggi orkuafhendingar á svæðinu.

Framkvæmdir miðast við sérstöðu Þeistareykja

Allur undirbúningur Þeistareykjavirkjunar hefur tekið mið af sérstöðu svæðisins, sem er nær ósnortið ef frá eru taldar búsetuminjar og ummerki um brennisteinsnám á öldum áður. Í skipulagsáætlunum hafa því verið afmörkuð verndarsvæði vegna náttúru- og fornminja.

Við hönnun virkjunar hefur verið hugað að áhrifum á landslag og ásýnd svæðisins. Framkvæmdir hafa því verið skipulagðar á þann hátt að landmótun og frágangur fer fram samhliða uppbyggingu.

Áhersla á fjölnýtingu jarðhitasvæða

Landsvirkjun leggur sérstaka áherslu á að kanna möguleika fjölnýtingar á jarðhitasvæðum á Norðausturlandi. Með fjölnýtingu vill Landsvirkjun nýta jarðhitaauðlindina betur með því að vinna verðmæti úr öllum orku- og efnastraumum sem til falla.

Heitt vatn, gufa og gas eru nýtanleg í ýmsan iðnað sem krefst orku. Þar má helst nefna ræktun matvæla og þörunga, áframvinnslu ýmissa hráefna og eldsneytisvinnslu úr koltvísýringsútblæstri virkjana. Fjölnýting getur einnig stutt við ferðamennsku á jarðhitasvæðunum og má þar nefna jarðböðin við Mývatn sem nýta affallsvatn frá Bjarnarflagsstöð.

Heimild: Landsvirkjun