Home Fréttir Í fréttum Hillir undir lok framkvæmda í Úlfarsárdal

Hillir undir lok framkvæmda í Úlfarsárdal

245
0
Mynd: Reykjavíkurborg

Stöðuskýrsla um framkvæmdir við skóla, menningarhús, sundlaug og íþróttamiðstöð var kynnt í borgarráði.

<>

Starfshópur um framkvæmdir í Úlfarsárdal kynnti í gær stöðuskýrslu um framkvæmdir við skóla, menningarhús, sundlaug og íþróttamiðstöð í dalnum en framkvæmdir við mannvirkin hófust haustið 2015.

Farið er yfir alla áfanga verksins og þróun kostnaðar í skýrslunni en nú er farið að hilla undir lok framkvæmda borgarinnar í dalnum þótt sitthvað sé enn eftir.

  1. áfangi. Leikskóli. Framkvæmdir hófust haustið 2015 og var leikskólinn tekinn í notkun haustið 2016.
  2. áfangi. Dalskóli. Framkvæmdir við skólann hófust í ársbyrjun 2017 en byggingin hefur verið tekin í notkun í áföngum. Öll kennslurými voru komin í notkun haustið 2019, mötuneyti og eldhús í byrjun árs 2020 og rými fyrir tónlistarkennslu haustið 2020.
  3. áfangi. Íþróttamiðstöð. Framkvæmdir hófust á haustmánuðum 2019 og áformað er að framkvæmdum ljúki 2022.
  4. áfangi. Menningarmiðstöð og innilaug. Framkvæmdir hófust á vormánuðum 2018. Uppsteypu og frágangi utanhúss er að mestu lokið og er nú unnið við frágang innanhús. Áformað er að ljúka verkinu 2021.
  5. áfangi. Útisundlaug. Framkvæmdir hófust vorið 2018. Uppsteypu er lokið og er nú unnið að fullnaðarfrágangi. Verklok eru áformuð 2021.

Frumkostnaðaráætlun við framkvæmdirnar var samþykkt í borgarráði í apríl 2015 og hljóðaði hún upp á 9.853 milljónir króna og miðaðist við þáverandi byggingarvísitölu.

Við þessa áætlun hefur bæst vegleg rennibraut í útisundlaugina og stækkun íþróttahússins. Þá hefur byggingarvísitalan hækkað á þeim sex árum sem liðin eru frá því framkvæmdir hófust.

Lokakostnaður er áætlaður 13.538 milljónir króna á verðlagi í febrúar 2021.

Í janúar var óskað eftir heimild borgarráðs til að bjóða út framkvæmdir vegna grasæfingasvæðis á íþróttasvæði Fram.

Framkvæmdir við svæðið hefjast vorið 2021 og er kostnaðaráætlun 200 mkr.

Þá er áformað að ljúka frágangi lóðar meðfram Úlfarsárbraut og á svæðinu norðan við menningarmiðstöðina og aðkomutorgi á þessu ári.

Í samningi við íþróttafélagið Fram er gert ráð fyrir knatthúsi sem mun hýsa hálfan fótboltavöll. Forhönnun og frumkostnaðaráætlun fyrir þessa framkvæmd er lokið en hún hljóðar upp á 700 mkr.

Kostnaður við knatthús er ekki innifalinn í núverandi áætlun um heildarkostnað og ekki hafa verið teknar ákvarðanir um útfærslu né tímasetningar framkvæmdarinnar.

Úlfarsárdalur Stöðuskýrsla

Heimild: Reykjavik.is