Home Fréttir Í fréttum Vilja hefja vegagerð í sumar á hæsta hluta Dynjandisheiðar

Vilja hefja vegagerð í sumar á hæsta hluta Dynjandisheiðar

131
0
Frá veginum um Dynjandisheiði. EGILL AÐALSTEINSSON

Vegagerðin stefnir að því að bjóða út í vor stærsta áfangann í endurbyggingu Vestfjarðavegar yfir Dynjandisheiði. Vegarkaflinn er á hæsta hluta heiðarinnar og þykir mikilvægt að sumarið nýtist til framkvæmda.

<>

Vinna við fyrsta áfanga vegarins hófst síðastliðið haust á sex kílómetra kafla upp úr Vatnsfirði ofan Flókalundar. Hluti verksins er einnig fjögurra kílómetra kafli milli Mjólkár og Dynjandisvogar í Arnarfirði og eiga þeir báðir að vera tilbúnir með bundnu slitlagi í haust. Skipulagsvinna vegna næsta áfanga stendur yfir og vonast Vegagerðin til að geta boðið hann út í vor.

Sigurþór Guðmundsson er verkefnisstjóri Vestfjarðavegar hjá Vegagerðinni.
EINAR ÁRNASON

„Það ræðst samt af fjárveitingum og öðru slíku en við ætlum að vera tilbúnir með næsta áfanga núna í vor, sem er fjórtán kílómetrar,“ segir Sigurþór Guðmundsson, verkefnisstjóri Vestfjarðavegar hjá Vegagerðinni, spurður um næsta útboðsáfanga í fréttum Stöðvar 2.

Þetta yrði jafnframt stærsti áfanginn og lengsti vegarkaflinn.

Kaflinn sem Vegagerðin vill bjóða út í vor.
KORT/RAGNAR VISAGE

„Sem er frá Þverdalsá, þar sem við erum að enda núna, og áfram yfir heiðina, yfir tvo hæstu hluta hennar, og niður hinumegin,“ segir Sigurþór en að norðanverðu nær kaflinn nokkurn veginn að sýslumörkum Barðastrandar- og Ísafjarðarsýslna, sveitarfélagamörkum Vesturbyggðar og Ísafjarðarbæjar.

Á þessum kafla nær heiðin í fimmhundruð metra hæð. Vinna að vetrarlagi svo hátt yfir sjávarmáli getur verið áskorun og því vonast Vegagerðarmenn til að koma verkinu í gang sem fyrst.

„Vera allavegana tilbúnir í slaginn með það og reyna að ná sumrinu inn í það verkefni.“

Rætt er um að eins kílómetra malarkafli ofan Flókalundar verði lagður bráðabirgðaslitlagi þar til niðurstaða fæst um framtíðarvegstæði um friðland Vatnsfjarðar.
BALDUR HRAFNKELL JÓNSSON

Sigurþór segir markmiðið að slitlag verði komið alla leið milli Dýrafjarðarganga og Vatnsfjarðar árið 2024. Hann telur líklegt að meðan beðið er niðurstöðu um framtíðarvegstæði um friðlandið í Vatnsfirði, meðfram ánni Pennu, verði lagt bráðabirgðaslitlag á núverandi malarkafla milli Flókalundar og nýja vegarkaflans í Penningsdal.

Í Dynjandisvogi hallast Vegagerðarmenn að því að skera veginn upp fjallið í Búðahlíð.

„Vera eins fjarri Dynjanda og hægt er.“

Vegagerðarmenn telja heppilegast að um Dynjandisvog verði vegurinn lagður í skeringu um Búðahlíð, eins og hér er sýnt.
VEGAGERÐIN

Þannig segir Sigurþór að fengist minnsti veghalli og færri beygjur, fornminjum yrði hlíft í Búðavík og raski á landslaginu næst fossinum haldið í lágmarki.

„En það eru mjög skiptar skoðanir um þetta,“ segir verkefnisstjórinn.

Heimild: Visir.is