Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur og Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs leggja til að samþykkt verði að haldin verði hönnunar- og skipulagssamkeppni um sundlaug í Fossvogsdal.
Tillaga þar að lútandi var lögð fyrir borgarráð Reykjavíkur og bæjarráð Kópavogs í morgun.
Í sameiginlegri tilkynningu segir að Fossvogslaug myndi bætast í flóru þeirra almenningssundlauga sem þegar sé starfræktar á höfuðborgarsvæðinu. Áhersla verði lögð á umhverfisvæna hönnun og framkvæmd sundlaugarinnar með vistvænum útfærslum, þar með talið græna fjármögnum byggingarinnar.
Aðstæður í dag styðji vel við hugmyndafræðina
„Aðkoma að Fossvogslaug verður einkum fyrir gangandi og hjólandi og verða bílastæði laugarinnar einungis fyrir fatlað fólk og fyrir aðföng. Þá verður sundlaugin nýtt fyrir skólasund nærliggjandi skóla í Reykjavík og Kópavogi.
Bæjarstjóri og borgarstjóri hafa fundað með yfirmönnum skipulags- og umhverfismála í sveitarfélögunum um staðsetningu laugarinnar sem verður sameiginlegt verkefni Kópavogs og Reykjavíkur. Bæjarstjórn Kópavogs mun taka málið fyrir á næsta fundi bæjarstjórnar, þriðjudaginn 23.mars.
Bent er á á að aðstæður í dag styðja vel við græna hugmyndafræði sundlaugarinnar, hjólreiðar hafa aukist verulega og unnið er að betri almenningssamgöngum með Borgarlínu. Gera má því ráð fyrir að sundlaugin verði vinsæl hjá útivistarfólki, auk þeirra sem búa í nærliggjandi hverfum við Fossvogsdal.“
Tímabært að stíga næstu skref
Fyrirhuguð hönnunarsamkeppni verði unnin í samráði við Arkitektafélag Íslands.
Ármann segir að hugmyndin sé spennandi. Hann eigi von á því að bæjarstjórn Kópavogs taki tillögunni vel.
„Hugmyndin er ekki ný af nálinni og því tímabært að stíga næstu skref. Grænar áherslur eru í takt við tímann og sundlaugin yrði áreiðanlega mjög vinsæl meðal útivistarfólks og auka lífsgæði íbúa í nágrenninu fyrir utan að vera nauðsynleg viðbót fyrir skólasund,“ er haft eftir Ármanni.
Dæmi um tímamótasamstarf
Dagur segir það gríðarlega jákvætt að taka þessi sameiginlegu skref varðandi útfærslu og hönnun Fossvogslaugar í hjarta Fossvogsdals.
„Þetta er líka dæmi um tímamótasamstarf sveitarfélaganna Reykjavíkur og Kópavogs. Engin dæmi eru um sameiginlega byggingu og rekstur sundlauga á landinu. Ég er sannfærður um að þetta geti orðið algjör perla. Stefnan er að allir Reykjavíkingar búi í auðveldu göngu- eða hjólafæri frá almenningssundlaug,“ er haft eftir Degi.
„Það gildir alls staðar með þeirri undantekningu að það á ekki við um íbúa í Fossvogs- og Bústaðarhverfi. Fossvogslaug mun breyta því.
Reykjavík og Kópavogur hafa mikinn metnað til að byggja þessa sundlaug með grænum áherslum, bæði í uppbyggingu og í rekstri og er stefnan að útfæra hana þannig að hún muni þjóna gangandi og hjólandi afar vel. Framundan er metnaðarfull hönnunarsamkeppni sem við hlökkum öll til að sjá niðurstöðuna úr.“