Vegagerðin leitar eftir upplýsingum um áhugasama bjóðendur vegna fyrirhugaðs útboðs samvinnuverkefnisins „Hringvegur um Hornafjarðarfljót“, í samræmi við lög nr. 80/2020 um samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir.
Lýsing á verkefninu
Um er að ræða nýja legu Hringvegarins um Hornafjarðarfljót sem mun stytta núverandi hringveg um 12 kílómetra.
Framkvæmdin felur í sér lagningu 19 kílómetra langs þjóðvegar, byggingu fjögurra tvíbreiðra brúa, lagningu nokkurra hliðarvega, samtals um 4 kílómetra langra, auk tveggja áningarstaða.
Leitað er eftir aðilum sem hafa áhuga á að semja við Vegagerðina, í kjölfar útboðs, um framkvæmdina, fjármögnun, rekstur og viðhald mannvirkjanna til lengri tíma.
Verkhönnun er lokið og munu hönnunargögn liggja fyrir við útboðið. Útboðið felur í sér byggingu og fjármögnun mannvirkjanna auk reksturs og viðhaldi þeirra á 20-30 ára samningstíma.
Gert er ráð fyrir að ríkið leggi til allt að 50% fjármagnsins er þarf til framkvæmdanna.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist fyrir árslok 2021.
Vegagerðin áskilur sér rétt til þess að óska eftir frekari upplýsinga frá þeim verktökum sem skrá sig samkvæmt RFI auglýsingunni.
Áhugasamir eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig í rafræna útboðskerfinu TendSign fyrir kl. 23:55 miðvikudaginn 10. mars 2021. Ef frekari upplýsinga er óskað skal senda fyrirspurn í útboðskerfinu.
Athygli er vakin á því að einungis er um að ræða beiðni um upplýsingar. Skráning felur ekki í sér skuldbindingu um þátttöku í útboði á síðari stigum.
Ákvörðun um að skila ekki inn upplýsingum á þessu stigi útilokar ekki þátttöku í útboði þegar það verður auglýst.