Framkvæmdir við nýtt 40 herbergja hótel í Reykholti í Bláskógabyggð, Blue Hótel Fagralund, ganga vel. Undirstöður eru tilbúnar og verið er að smíða hótelbygginguna sjálfa úti í Noregi.
Von er á húsinu um miðjan apríl og stefnt að opnun hótelsins 15. júní.
Þegar hóteleiningarnar koma verður þeim raðað upp. Jóhann Guðni Reynisson, framkvæmdastjóri Stakrar gulrótar ehf. sem byggir hótelið, segir að það taki aðeins nokkra daga að setja húsið upp. Síðan þarf að ganga frá göngum og anddyri og útbúa húsið sem hótel.
Jafnframt er verið að breyta eldra gistiheimili fyrirtækisins. Þar verður móttaka fyrir hótelið og morgunverðarsalur.
„Við reiknum frekar með Íslendingum í sumar, að minnsta kosti framan af. Íslendingar vilja hafa heita potta og hluti af okkar viðbrögðum við breyttri stöðu er að koma upp pottum og heilsulind fyrir gestina.
Mér heyrist á öllu að það gangi vel að bólusetja í Bretlandi og Bandríkjunum sem verið hafa okkar helstu markaðir og ég vonast til að gestir þaðan fari að skila sér þegar líður á sumarið,“ segir Jóhann Guðni.
Heimild: Mbl.is