Home Fréttir Í fréttum 20.10.2015 Götur, veitur, lóð og sjúkrahótel NLSH

20.10.2015 Götur, veitur, lóð og sjúkrahótel NLSH

230
0
Drög að nýjum landspítala.

Framkvæmdasýsla ríkisins (FSR), fyrir hönd verkkaupa sem er Nýr Landspítali ohf. (NLSH) óskar eftir tilboðum í verkið „Nýr Landspítali við Hringbraut – Götur, veitur, lóð og sjúkrahótel”.

<>

Framkvæmdin er á norðurhluta lóðar Landspítala við Hringbraut milli Kvennadeildar, K-byggingar og Barónsstígs. Verkinu er skipt í tvo verkhluta samanber eftirfarandi:

Verkhluti GVL – Götur, veitur og lóð

Helstu þættir þessa verkhluta eru:

  • Aðstöðusköpun
  • Upprifi á núverandi yfirborði gatna, göngustíga, bílastæða og grænna svæða ásamt  jarðvinnu fyrir sjúkrahótelið
  • Öll vinna við lagnir á svæðinu
  • Uppsteypa tengiganga og stoðveggja
  • Nýbygging gatna, bílastæða og gönguleiða, ásamt öllum lóðarfrágangi

Verkhluti SJH – Sjúkrahótel, bygging

Sjúkrahótelið er hluti af fyrsta áfanga uppbyggingar Landspítala (NLSH) við Hringbraut. Það mun rísa norður af C-álmu Kvennadeildar. Hótelið mun tengjast Barnaspítala/Kvennadeild um tengigang í kjallara. Í byggingunni eru 75 hótelherbergi.

Byggingin er kjallari og fjórar hæðir – 4.258 m2 að stærð (brúttó) og 14.780 m3 (brúttó) með kjallara og tengigöngum sem tilheyra hótelinu.

Helstu þættir þessa verkhluta eru:

  • Jarðvinna að hluta
  • Uppsteypa
  • Einangrun, steinklæðning og þakfrágangur
  • Gluggar og frágangur glugga
  • Neysluvatnslagnir, vatnsúðakerfi, fráveita og loftræsisamstæða
  • Raflagnir og smáspennulagnir
  • Innrétting starfsmannaaðsstöðu og hótelherbergja
  • Innréttinga matsalar, setustofa og skrifstofa
  • Vörulyfta og fólkslyftur

Verkinu öllu skal vera að fullu lokið í 1. júní 2017. Áfangaskil eru 1. júní 2016 og 15. mars 2017.

Verkefnið hefur verið unnið samkvæmt aðferðarfræði upplýsingalíkana mannvirkja (Building Information Modeling – BIM) og aðferðafræði vistvænnar hönnunar. Stefnt er að því að byggingin verði vottuð sem vistvænt mannvirki samkvæmt alþjóðlega umhverfisvottunarkerfinu BREEAM.

Haldið verður námskeið fyrir bjóðendur, á útboðstíma, um BIM kröfur – á  þeim tíma sem fram kemur í kafla 0.1.2 Útboðsform-Útboðsyfirlit í útboðs- og samningsskilmálum verkefnisins.

Útboðsgögn verða til sölu á kr. 3500 hjá Ríkiskaupum, Borgartúni 7C, 105 Reykjavík frá og með miðvikudeginum 9. september 2015.

Tilboðin verða opnuð hjá Ríkiskaupum,  þriðjudag 20. október 2015  kl  11:00  að viðstöddum þeim bjóðendum sem þess óska.