Leigufélagið Bríet, sem er í eigu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, mun taka þátt í uppbyggingu á allt að sex íbúðum á Seyðisfirði. Ríkisstjórnin og sveitarfélagið hyggjast taka höndum saman um að bregðast við þeirri eyðileggingu sem átti sér stað í desember síðastliðnum þegar aurskriður féllu á hluta byggðarinnar og ollu skemmdum á fjölda húsa.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, Hermann Jónasson, forstjóri HMS, og Soffía Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri leigufélagsins Bríetar, undirrituðu í dag viljayfirlýsingu þessa efnis en framkvæmdir munu hefjast mjög fljótlega. Ráðherra er nú staddur á Seyðisfirði.
Sveitarfélagið ákvað í gær á sveitarstjórnarfundi að ekki verði heimilt að búa í fjórum húsum sem eftir standa við Stöðvarlæk þar sem aurskriðurnar féllu og hefur Múlaþing óskað eftir stuðningi Ofanflóðasjóðs við að kaupa þessi hús.
Áður hafði verið ákveðið að óheimilt verði að endurbyggja hús á tíu lóðum, þar af fimm íbúðarhúsalóðum.
Fyrir hamfarirnar á Seyðisfirði auglýsti Bríet eftir byggingaraðilum til samstarfs um uppbyggingu tveggja leiguíbúða og í kjölfarið lýstu sex byggingaraðilar yfir áhuga á að koma að verkefninu.
Eftir að aurskriðurnar féllu var ákveðið að íbúðirnar yrðu allt að sex. Til greina kemur að samið verði um að væntanlegir leigjendur íbúðanna geti keypt eignirnar að vissum tíma liðnum.
Um verður að ræða 80-100 fermetra íbúðir með allt að þremur svefnherbergjum en Bríet leggur áherslu á byggingu íbúða sem eru í hagkvæmri stærð, til að nýta sem best fjármagn félagsins og svo að leiguverð þeirra sé viðráðanlegt. Í aurskriðunni voru það þó aðallega einbýlishús sem eyðilögðust.
Heimild: Mbl.is