Í gær var hjúkrunarheimilið Eyri afhent Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, sem mun taka að sér rekstur þess. Formleg athöfn var haldin klukkan 14.00 og í framhaldinu var opið hús þar sem íbúum var velkomið að skoða húsnæðið.
„Þetta er ansi vegleg bygging sem nú er tilbúin. Þetta er bylting í umönnun eldri borgara hér í Ísafjarðarbæ. Heimilið er byggt eftir nýjustu kröfum og uppfyllir öll þau skilyrði sem nú teljast best til umönnunar fyrir eldra fólk,“ segir Sigurður Pétursson, sagnfræðingur og formaður byggingarnefndar, við mbl.is.
Hjúkrunarheimilið Eyri er byggt af Ísafjarðarbæ fyrir 30 heimilismenn samkvæmt sérstöku samkomulagi við velferðarráðuneytið. Framkvæmdir hófust á árinu 2013 og nú er komið að þeim tímamótum að fullkomið hjúkrunarheimili fyrir 30 heimilismenn ásamt sal fyrir iðjuþjálfun er tilbúið til notkunar. Hjúkrunarheimilið verður afhent velferðarráðuneytinu og Heilbrigðisstofnun Vestfjarða tilbúið til rekstrar með öllum búnaði.
Sigurður segir hjúkrunarheimilið á góðum stað. „Það er staðsett hér í hjarta bæjararins með útsýni annars vegar yfir fjöllin okkar og hins vegar yfir pollinn.“
Hann býst við því að Eyri verði komið í full not fyrir áramót. „Þetta er búið að vera baráttumál okkar hérna í mörg ár að bæta aðstöðu aldraðra. Þetta er mjög gleðilegur viðburður. Fjöldi bæjarbúa hefur komið á opna húsið og er ánægt og stolt yfir þessu.“
Heimild: Mbl.is