Home Fréttir Í fréttum Stærsta fjós landsins á lengd við fótboltavöll

Stærsta fjós landsins á lengd við fótboltavöll

275
0
STÖÐ 2/FRIÐRIK ÞÓR HALLDÓRSSON. .

Stærsta fjós Íslands rís nú á Mýrum við Hornafjörð. Fjósbyggingin verður álíka löng og fótboltavöllur að löggiltri keppnisstærð og kýrnar munu mjólka samtals yfir fimmþúsund lítra á dag.

<>

Þeir sem aka hringveginn vestan Hornafjarðar þessa dagana reka eflaust margir upp stór augu að sjá ferlíkið rétt við þjóðveginn. Smíðin hófst í apríl í vor og þarna starfa nú um þrjátíu manns við framkvæmdirnar. Límtrésbyggingin, sem kemur frá Flúðum, verður hálfur hektari að stærð, eða 4.700 fermetrar að grunnfleti, 106 metra löng og 39 metra breið, og lofthæðin þrettán metrar.

Fjósið verður 106 metra langt og lofthæðin 13 metrar.

Inni verður rými fyrir 300 kýr, þar af 240 mjólkandi. Gert er ráð fyrir fjórum mjaltaþjónum, sem hver annar um sextíu kúm. Byggingarstjórinn, Hornfirðingurinn Birkir Birgisson, kveðst í samtali við Stöð 2 telja víst að þetta verði stærsta fjós landsins. Spurður hvernig fólki lítist á að fá svona risabyggingu í sveitina svarar Birkir: „Bara vel, held ég.“

Aðstæður gerast vart betri á landinu til kúabúskapar; á jörðinni Flatey á Mýrum er flæmi af rennisléttum túnum en forðum var þarna graskögglaverksmiðja, sem fyrirtækið Lífsval breytti í kúabú. Eftir að það félag fór í þrot eftir hrun keypti útgerðarfélagið Skinney-Þinganes eignina af Landsbankanum. Í stað þess að leggja árar í bát var stefnt á að tvöfalda mjólkurframleiðsluna frá því sem nú er, fara úr einni milljón lítra og stefna á tvær milljónir lítra á ári.

Að sögn Birkis er stefnt að því að nýja fjósið verði tilbúið fyrir jól.

Heimild: Vísir.is