Home Fréttir Í fréttum Fyrsti byggingarkrani Öræfa í stærsta sveitahóteli Íslands

Fyrsti byggingarkrani Öræfa í stærsta sveitahóteli Íslands

169
0
Hnappavellir í Öræfum

Stærsta hótel í dreifbýli á Íslandi, yfir eitthundrað herbergja lúxushótel, rís nú á Hnappavöllum í Öræfum. Verktakinn segir að byggingarkrani hafi aldrei áður sést í Öræfasveit.

<>

Þótt lágreistar séu eru byggingarnar þegar farnar að setja svip sinn á umhverfi Hnappavalla en hótelið verður hluti af keðju Fosshótela. Beka-ráðgjöf annast verkið en húsasmíðin er í höndum Húsheildar ehf. í Hafnarfirði.

„Ég held að ég sé ekki að ljúga mikið þegar ég segi að þetta sé stærsta hótel sem byggt hefur verið í dreifbýli,“ segir Ólafur Ragnarsson, byggingarverktaki hjá Húsheild ehf. „Þetta verður frekar fínt hótel. Þetta á að vera svona í hærri klassa, stór og flott herbergi, og alveg gríðarlega flott útsýni hérna.“

Stefnt er að því að opna næsta vor. Herbergin verða 104 talsins en einnig verða veitingasalir og ráðstefnuaðstaða. Það er reyndar með ólíkindum hversu hratt hótelið rís en framkvæmdir hófust þann 15. apríl í vor. Ástæðuna segir Ólafur vera þessar innfluttu timbureiningar.

„Þær eru alveg stórsniðugar. Þær auka framkvæmdahraða hér bara alveg um 40 prósent.“

Við smíðina starfa þrjátíu manns og fer fjölgandi. 50-60 manns verða með haustinu og í vetur, þegar fleiri pípulagningamenn og rafvirkjar koma í innivinnuna, að sögn Ólafs. Hér í Öræfasveit finna þeir fyrir vinnuaflsskorti.

„Jarðvinnuverktakinn er af þessu svæði og aukamenn í kringum það. Svo eru bændur hér tengdir jarðvinnunni. Ég hef nú ekki náð nema einum smið hér úr nágrenninu. Það er bara bullandi uppgangur á þessu svæði og erfitt að fá fólk. Þannig að við erum bara töluvert úr bænum sem erum hérna,“ segir Ólafur.

Í Öræfum hafa menn aldrei séð annað eins. Þetta er einfaldlega stærsta atvinnuuppbygging í sögu þessa fámenna héraðs.

„Þið verðið að athuga það að til dæmis í Öræfasveit, – þetta er í fyrsta skipti sem kemur byggingarkrani í sveitina. Það hefur aldrei gerst áður,“ segir Ólafur hjá Húsheild.

Heimild: Vísir.is