Home Fréttir Í fréttum Byggja 48 leiguíbúðir á Akranesi

Byggja 48 leiguíbúðir á Akranesi

276
0
Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, og Soffía Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri leigufélagsins Bríetar Mynd: Hms.is

Leigufélagið Bríet, sem er í eigu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar mun taka þátt í fyrirhugaðri uppbyggingu á allt að 48 íbúðum á Akranesi.

<>

Ríkisstjórnin og sveitarfélagið hyggjast þannig taka höndum saman um að auka framboð leiguhúsnæðis á Akranesi og þá verður fjármunum einnig varið til að efla stafræna stjórnsýslu á sviði byggingar- og skipulagsmála í sveitarfélaginu.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), og Soffía Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri leigufélagsins Bríetar, hafa undirritað viljayfirlýsingu þessa efnis en um er að ræða tilraunaverkefni.

Eitt af hlutverkum leigufélagsins Bríetar er að auka húsnæðisöryggi leigjenda utan SV-hornsins en fyrirsjáanlegur skortur er á leiguhúsnæði á vaxtarsvæðum víða um land.

Leigufélagið Bríet tekur þátt í uppbyggingu allt að 48 íbúða á Akranesi

Í gildandi húsnæðisáætlun Akraness kemur fram að það vanti leiguhúsnæði í sveitarfélaginu fyrir tiltekna hópa leigjenda.

Á það við um leiguíbúðir á almennum markaði, félagslegt leiguhúsnæði, leiguhúsnæði fyrir fólk og fjölskyldur með lægri tekjur og leiguhúsnæði fyrir fatlað fólk og aldraða.

Í viljayfirlýsingunni segir að leigufélagið Bríet muni taka þátt í fyrirhugaðri uppbyggingu á allt að 48 íbúðum á Akranesi og skuldbindur félagið sig til að kaupa allt að átta íbúðir.

Þá munu HMS og Akraneskaupstaður einnig veita stofnframlög til byggingar á allt að 24 svokölluðum almennum íbúðum sem eru hugsaðar fyrir fólk undir skilgreindum tekju- og eignamörkum og allt að 34 íbúðum fyrir aldraða. Sveitarfélagið skuldbindur sig til að tryggja hentugar lóðir undir íbúðirnar.

Þá kemur fram í yfirlýsingunni að bærinn muni fjölga íbúðum fyrir fatlað fólk á næstu árum um allt að 15 íbúðir. Fjölgunin verður í samstarfi við Ás styrktarfélag, Þroskahjálp og Brynju hússjóð. HMS mun koma að lánsfjármögnun, og eftir atvikum fjármögnun, byggingar íbúðanna með stofnframlögum úr ríkissjóði.

 

Greina raunhúsnæðiskostnað þeirra sem sækja vinnu á höfuðborgarsvæðinu

Tilraunaverkefni Akranesskaupstaðar og stjórnvalda mun einnig fela í sér greiningu á samspili húsnæðiskostnaðar og almenningssamgangna. Hugmyndin er að varpa ljósi á raunhúsnæðiskostnað þeirra sem búa á vaxtarsvæðum eins og Akranesi en sem sækja vinnu á höfuðborgarsvæðinu. Þá verður stafræn stjórnsýsla húsnæðis- og byggingarmála í sveitarfélaginu efld með útgáfu á rafrænni húsnæðisáætlun en fyrsta skrefið í þá átt er að skrá leigusamninga á svæðinu í nýjan Húsnæðisgrunn HMS. Samhliða á að auka skilvirkni í skipulagsmálum Akraneskaupstaðar, einfalda ferla og tryggja aukinn sveigjanleika við úthlutun lóða, auk þess sem sveitarfélagið og HMS munu vinna saman að verkefnum til að efla eldvarnir á heimilum og vinnustöðum á Akranesi.

 

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Það er virkilega ánægjulegt að undirrita þessa viljayfirlýsingu hér á Akranesi en ég hef lengi lagt sérstaka áherslu á að styrkja búsetu á landsbyggðinni. Við sjáum að húsnæðiskortur háir mörgum stöðum um allt land og hamlar þannig frekari atvinnuþróun og uppbyggingu. Á Akranesi hefur verið þörf fyrir aukið framboð af leiguhúsnæði fyrir ýmsa hópa og það verður spennandi að fylgjast með uppbyggingu hér á næstu misserum.“

Heimild: HMS.is