Vonskuveður var víðast hvar á landinu í dag og töluvert um foktjón. Þá var úrhellir á Seyðisfirði og Fjarðarheiði var lokuð bróðurpart dags. Sveitarstjóri Múlaþings segir gríðarlega mikilvægt að hefja framkvæmdir á Fjarðarheiði eins fljótt og auðið er.
Veðrið var einna verst í Vestmannaeyjum, en þar höfðu björgunarsveitarmenn í nægu að snúast. „Þetta var þetta klassíska. Þakpappi, þök, hurðir fuku, bátar losnuðu frá bryggju og svo fram vegis. En þetta slapp ótrúlega vel,“ segir Arnór Arnórsson, formaður Björgunarfélags Vestmannaeyja, sem var á óðaönn við að undirbúa flugeldasölu þegar fréttastofa náði af honum tali.
„Veðrið var mjög bylgjótt. Hviðurnar fóru upp í um 43 metra á sekúndu og það var í þessum hviðum sem verkefnin hrúguðust inn,” segir hann.
„Við vorum sem betur fer með nóg af fólki í þremur bílum þannig að við gátum dreift mannskapnum vel niður á verkefnin.”
Þá var úrhellir á Seyðisfirði en þar er hættustig enn í gildi í kjölfar aurskriðanna sem féllu í bænum fyrir jól. Engar hreyfingar hafa mælst á skriðusvæðinu í dag en hættustig verður áfram í gildi.
„Við höfum farið yfir þetta með sérfræðingum Veðurstofunnar og fleirum og þar eru skilaboðin þau að veðrið var eins og menn voru búnir að sjá fyrir, og miðað við þær mælingar sem hafa verið gerðar þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur,” segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings.
Úrkoman mun breytast í hríðarveður á morgun og er því ekki útlit fyrir að hreinsunarstarf geti hafist fyrr en í fyrsta lagi á þriðjudag.
„Það var allavega ákveðið að fara ekki í endurskoðun rýmingar að svo stöddu fyrr en við hefðum tök á því að greina þetta betur og taka þetta út aftur á morgun. Þá verður tekin afstaða til þess hvort við höldum okkur við óbreyttar rýmingar eða hvort það verði afléttingar.”
Fjarðarheiði var lokuð bróðurpart dags en íbúar hafa haft nokkrar áhyggjur af því að verða innlyksa í bænum á meðan hættustig er í gildi, og segja það hafa verið til happs að heiðin hafi verið fær þegar skriðurnar féllu. Fyrirhugað er að hefja vinnu við Fjarðarheiðargöng árið 2022. Aðspurður segir Björn ekki raunhæft að fara fram á að verkefninu verði flýtt til 2021.
„Ég er ekki viss um að það sé raunhæft að framkvæmdir geti hafist strax á árinu 2021 en auðvitað munum við leggja áherslu á að það verði farið í þetta eins hratt og mögulegt er. En þetta sýnir bara að það sem við höfum verið að leggja áherslu á, sveitarfélögin hér fyrir austan, mikilvægi þess að opna þessa tengileið undir Fjarðarheiðina. Gífurlega mikilvægt,” segir Björn.
Heimild: Visir.is