Home Fréttir Í fréttum Ný hitaveita RARIK á Höfn í Hornafirði

Ný hitaveita RARIK á Höfn í Hornafirði

134
0
Matthildur bæjarstjóri á Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Tryggvi Þór forstjóri RARIK hleypa heita vatninu frá Hoffelli inn á bæjarkerfið á Höfn.

Eftir 25 ára leit að heitu vatni í sveitarfélaginu var heitu vatni frá jarðhitasvæðinu í Hoffelli hleypt inn á hitaveitukerfið á Höfn sl. föstudag.

<>
Vegna COVID ástandsins var atburðurinn lágstemmdur og frekar fámennur þar sem fyllstu sóttvarnarsjónarmiða var gætt.

Þau tímamót urðu þann 18. desember sl. á Höfn í Hornafirði að heitu vatni frá jarðhitasvæðinu í Hoffelli var í fyrsta skipti hleypt á hús sem tengd eru fjarvarmaveitu bæjarins.

Þar með rætist langþráður draumur Hornfirðinga um að jarðhiti komi í stað raf- og olíukyndingar en tæp 30 ár eru síðan byrjað var að leita skipulega eftir heitu vatni í Hornafirði.

Lagnakerfi hitaveitunnar í tæknirými undir jöfnunartanki RARIK í Hoffelli.

Það voru Matthildur Ásmundardóttir bæjarstjóri Hafnar og Tryggvi Þór Haraldsson forstjóri RARIK sem hleyptu heita vatninu frá Hoffelli inn á veitukerfi bæjarins í fámennri athöfn í dælustöð RARIK við Stapa í Nesjum í Sveitarfélaginu Hornafirði.

Um 75% íbúa á Höfn, sem voru tengdir fjarvarmaveitu bæjarins njóta heita vatnsins frá Hoffelli í þessum fyrsta áfanga en um fjórðungur íbúa þarf að bíða enn um sinn eftir að tengjast hitaveitunni. Síðar í vetur hefst vinna við að stækka dreifikerfi hitaveitunnar og að tengja þau 100 heimili og fyrirtæki á Höfn og í Nesjum sem enn nýta rafmagn til upphitunar.

Hitaveitudælur í dælustöð RARIK við Stapa í Hornafirði.

Langþráð bið á enda
Eftir um 25 ára skipulagða leit fannst heitt vatn fyrst í vinnanlegu magni í holu sem boruð var í Hoffelli árið 2016. Síðan hafa þrjár vinnsluholur til viðbótar staðfest að svæðið getur annað þörfum sveitarfélagsins. Í kjölfarið fór undirbúningur hitaveituframkvæmda á fullan skrið.

Nýlega var lokið lagningu 20 km stofnpípu frá Hoffelli til Hafnar en lagning hennar og bygging dælustöðva og annarra mannvirkja hófst haustið 2019. Vonir standa til að á næstu misserum verði hægt að ljúka tengingu þeirra heimila og fyrirtækja á Höfn og Nesjum sem ekki tengdust hitaveitunni í dag.

Dælustöð RARIK við Stapa.

Rekstrargrundvöllur fjarvarmaveitna brostinn
Kyndistöð fjarvarmaveitunnar á Höfn sem rekin hefur verið frá því um 1980 hefur notað ótryggða raforku til upphitunar en olíu til vara. Undanfarin ár hefur verð á slíkri orku hækkað verulega í hlutfalli við forgangsorku og óvissa verið um framboð á henni.

Rekstrarforsendur fjarvarmaveitna sem byggja á ótryggðri raforku eru því ekki lengur fyrir hendi. Ný hitaveita RARIK sem tryggir Hornfirðingum nægt framboð á heitu jarðhitavatni til framtíðar er því stórt framfaraskref.

Jöfnunartankur RARIK í Hoffelli.

Matthildur Ásmundardóttir bæjarstjóri á Höfn:
Þetta er góð jólagjöf til íbúa Sveitarfélagsins Hornafjarðar sem hafa lengi látið sig dreyma um hitaveitu. Í dag tengjast um 75% íbúa á Höfn hitaveitunni í gegnum fjarvarmaveituna sem fyrir er. Á næsta ári verður hægt að ljúka tengingum í Nesjum og það sem upp á vantar í þéttbýlinu.

+Íbúar munu líklega ekki finna fyrir mikilli lækkun á kostnaði fyrstu árin en til framtíðar bætir þetta lífsgæði Hornfirðinga sem um munar og gerir sveitarfélagið að áhugaverðari búsetukosti. Bæjarstjórn hefur lagt sig fram við að létta undir með íbúum m.a. með magninnkaupum á tengigrindum og átt mjög gott samstarf við RARIK um framkvæmdina.

Frá lagningu stofnlagnar frá Hoffelli að Höfn í sumar.

Tryggvi Þór Haraldsson forstjóri RARIK:
Það er mjög ánægjulegur áfangi fyrir RARIK þegar heitu jarðhitavatni frá Hoffelli er hleypt inn á hitaveituna á Höfn. Leit að jarðhita hófst fyrir tæpum þremur áratugum, en RARIK kom inn í það verkefni 2002, fyrst með sveitarfélaginu og stuðningi stjórnvalda, en frá 2006 hefur RARIK kostað jarðhitaleitina.

Nú erum við komin með fjórar holur sem gefa talsvert mikið vatn og höfum virkjað þrjár þeirra, þótt ein dugi í byrjun fyrir almenna notkun og tvær fyrir toppálag. Búið er að leggja verulega fjármuni í þetta verkefni en við erum sannfærð um að þessi veita verður íbúum á Höfn til mikilla hagsbóta til langrar framtíðar.

Heimild: RARIK.is