Húsið að Bræðraborgarstíg 1, þar sem þrír fórust í bruna í júní, var „óbyggilegt frá brunatæknilegu sjónarhorni“. Þetta segir í nýrri skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um brunann. Meginástæða þess að hann hafi verið jafnskæður og raunin var, hafi verið ástand hússins og lélegar brunavarnir.
Einangrun hússins var að mestu brennanleg, m.a. úr hálmi og spænum, sem auðveldaði útbreiðslu eldsins. Þá var lítil sem engin brunahólfun hafi gert það að verkum að ekki var hægt að stunda slökkvistarf innanhúss og reykur breiddist hratt út.
Karlmaður á sjötugsaldri hefur verið ákærður fyrir manndráp af ásetningi, en hann er grunaður um að hafa kveikt í húsinu, sem brann til kaldra kola.
Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að kveikt hafi verið í á tveimur stöðum í húsinu. Eldurinn hafi byrjað í herbergi á annarri hæð, en stuttu síðar hafi eldur kviknað á stigapalli á sömu hæð. Reykur frá þeim eldi teppti fljótlega einu útgönguleið hússins.
Framkvæmdir ekki í samræmi við samþykktir
Í skýrslunni segir að breytingar hafi verið gerðar á húsinu sem voru ekki í samræmi við samþykktar teikningar. „Byggingasaga hússins hjá byggingarfulltrúa er ekki tæmandi um allar framkvæmdir á húsinu og hún liggur því ekki öll ljós fyrir.“
Samkvæmt teikningunum áttu íbúðir að vera á 2. hæð og í risi, en raunin var þó sú að herbergin voru mun fleiri en samþykkt var, og hvert þeirra í þokkabót í útleigu.
Fyrir vikið var húsið notað af fjölda einstaklinga, og segir í skýrslunni að breytt notkun hefði kallað á breyttar brunavarnir og eldvarnaeftirlit.
Þegar hefur verið greint frá því að 73 voru með lögheimili í húsinu, þótt ljóst sé að ekki hafi svo margir búið þar í raun.
Einnig er í skýrslunni rakin yfirsjón byggingarfulltrúa. Teikningar af húsinu höfðu verið lagðar fram hjá byggingarfulltrúa árið 2000, en ekki verið kallað eftir sérstakri brunahönnun eins og hefði átt að gera.
Þá segir að „þær litlu brunavarnir sem þó komu fram á samþykktum teikningum frá árinu 2000 [hafi] ekki [verið] til staðar þegar eldsvoðinn átti sér stað,“ og er húsinu því lýst sem óbyggilegu frá brunatæknilegu sjónarhorni.
Slökkvistarf hefði ekki getað bjargað mannslífum
Þá er farið yfir slökkvistarf á vettvangi. Fyrsti sjúkrabíll kom á vettvang 96 sekúndum eftir að tilkynning barst neyðarlínu, og sex mínútum og tíu sekúndum síðar kom fyrsti dælubíll á vettvang.
Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að þrátt fyrir fulla mönnun á innan við sjö mínútum, hafi það engu breytt um gang mála. „ Ekki hafi verið hægt, eins og aðstæður voru, að bjarga þeim þremur mannslífum sem létu lífið [sic] í eldsvoðanum.“
Skýrsla HMS um eldsvoða að Bræðraborgarstíg
Heimild: Mbl.is