Home Fréttir Í fréttum Stefnt að úthlutun lóða í nýjum miðbæ á næsta ári

Stefnt að úthlutun lóða í nýjum miðbæ á næsta ári

173
0
Mynd: Aðsend - Akureyrarbær
Þrenging á þjóðvegi eitt í gegnum Akureyri og tuttugu þúsund fermetrar í nýju húsnæði eru á meðal breytinga á skipulagi miðbæjarins sem kynntar voru í dag. Þetta er í þriðja sinn á áratug sem bæjarstjórn á Akureyri kynnir nýtt miðbæjarskipulag.

Það eru breytingar á sex ára gömlu deiliskipulagi sem nú er verið að kynna. Á svæði sem afmarkast af Glerárgötu, Skipagötu og Hofsbót á að byggja allt að fjögurra hæða hús og er heildar byggingarmagn tæpir tuttugu þúsund fermetrar. Allt byggingarsvæðið er nú notað sem bílastæði.

<>

Bílastæðakjallari undir öllu skipulagssvæðinu

„Stærsta breytingin er að Glerárgatan verður ekki færð og ekki einfölduð eins og er í núgildandi deiliskipulagi. Þá verður bílastæðakjallari undir ölliu svæðinu, það verður hjólastígur í Skipagötunni og það verður ein þverun yfir Glerárgötuna fyrir gangandi og hjólandi en það voru þrjár í fyrri útgáfu,“ segir Hilda Jana Gísldóttir, formaður stýrihóps um uppbyggingu miðbæjar Akureyrar.

Skipulagssvæðið í heild Mynd: Aðsend – Akureyrarbær

Sammála að fylgja þessarri málamiðlun

Hún segir að fyrirtækið sem byggi þessi hús ráði miklu um hvaða starfsemi verði þar. Hugmyndin sé að þarna verði iðandi mannlíf, verslanir, skrifstofur og jafnvel íbúðir. Þá er á skipulaginu nokkurs konar göngugata og Glerárgatan þrengd í þágu gangandi vegfarenda. Þarna liggur þjóðvegur eitt í gegnum bæinn og þrenging götunnar er gamalt pólitískt deilumál í bæjarstjórn. „Það er bara ennþá deilt um allskonar atriði þessu deiliskipulagi. En þessi bæjarstjórn hefur samþykkt að fylgja þessarri málamiðlun, þó það séu ekki allir sammála um eitt og allt í þessu,“ segir hún.

Fyrstu lóðunum verði úthlutað á næsta ári

Þetta er í þriðja sinn á um það bil áratug sem bæjaryfirvöld á Akureyri kynna miklar breytingar á skipulagi miðbæjarins. Enn hefur lítið sem ekkert verið framkvæmt. Hilda Jana segir að þessi bæjarstjórn muni leggja til að það verði byrjað að framkvæma. „Já við munum leggja það til að fyrstu lóðirnar fari í úthlutun strax á næsta ári, með þá von í brjósti að uppbygging hefjist hið allra fyrsta.“

Hagur allra að hefja þessa uppbyggingu

En í rauninni sé ekkert sem tryggi að eitthvað gerist þó þetta samkomulag liggi nú fyrir. „Það þurfa öll næstu skref að fylgja þar á eftir. Næsta bæjarstjórn, framkvæmdaaðilar og svo framvegis. En við höfum þó stigið þetta skref. Ég bind miklar vonir við það að þetta heiðursmannasamkomulag milli flokka, um þessa málamiðlun, haldi. Það er miklu meiri hagur í því að við hefjum hérna uppbyggingu, heldur en að þræta um einsaka mál í þessu skipulagi.“

Heimild: Ruv.is