Home Fréttir Í fréttum 78 vilja reisa hagkvæmar íbúðir

78 vilja reisa hagkvæmar íbúðir

174
0
Mynd: Haraldur Guðjónsson /vb.is

78 byggingaraðilar hafa skráð sig í samstarf við HMS um að byggja hagkvæmar íbúðir sem fjármagna má með hlutdeildarláni.

<>

Alls hafa 78 byggingaraðilar skráð sig í samstarf við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) um að byggja hagkvæmar íbúðir sem fjármagna má með hlutdeildarláni.

Alls hyggjast þessir aðilar byggja 2.333 íbúðir, en þar af er ríflega helmingurinn á höfuðborgarsvæðinu. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

„Þau sjónarmið voru viðruð í aðdraganda samþykktar frumvarps um hlutdeildarlán að kröfur um hámarksverð gætu orðið til þess að lítið yrði byggt af íbúðum þar en þær áhyggjur virðast hafa verið óþarfar.

Lög um hlutdeildarlán tóku gildi 1. nóvember sl. og er gert ráð fyrir að fyrstu lánunum verði úthlutað til einstaklinga fljótlega,“ segir í tilkynningunni.

Hlutdeildarlán sé nýtt úrræði fyrir tekju- og eignaminni einstaklinga, en því sé ætlað að hjálpa fyrstu kaupendum undir ákveðnum tekjumörkum sem eiga ekki fyrir útborgun í íbúð en hafa aftur á móti greiðslugetu til að greiða af húsnæðisláni.

Þau séu eingöngu veitt til kaupa á nýjum, hagkvæmum íbúðum sem samþykktar séu af HMS og þær þurfi að uppfylla skilyrði hvað varðar stærð og verð.

„Af þeim 2.333 hagkvæmu íbúðum sem byggingaraðilarnir hyggjast reisa eru 1.368 á höfuðborgarsvæðinu og 965 á landsbyggðinni, flestar á Suðurnesjum og Suðurlandi.

Nú þegar er búið að gefa út samþykki fyrir 468 íbúðum sem uppfylla skilyrði hlutdeildarlána, af þeim eru 200 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu og 268 á landsbyggðinni, flestar í Reykjanesbæ og Akureyri,“ segir í fréttatilkynningu.

Hlutdeildarlánin muni að mati HMS stuðla að auknu framboði íbúða sem henti tekjulægri hópum, ýta undir að sveitarfélög bjóði ódýrari lóðir og hvetji til nýsköpunar í byggingaraðferðum.

Mikil eftirspurn sé eftir minni íbúðum en byggingaraðilar hafi hingað til séð sér meiri hag í byggingu stærri dýrari íbúða eða minni lúxusíbúða.

Tilkoma hlutdeildarlánanna muni verða þeim hvatning til að byggja meira fyrir þann hóp sem á rétt á nýju lánunum.

Heimild: Vb.is