Home Fréttir Í fréttum Sundabraut í einkaframkvæmd og þar verði veggjöld

Sundabraut í einkaframkvæmd og þar verði veggjöld

164
0
Mynd: RÚV
Fjórir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að einkaaðili annist heildarfjármögnun Sundabrautar og að veggjöld verði innheimt þar.
Um sé að ræða eina dýrustu einstöku framkvæmd sem sé til skoðunar í íslenska vegakerfinu og til að standa straum af kostnaðinum þyrfti annaðhvort að auka umtalsvert opinber framlög til nýframkvæmda eða draga úr þeim á öðrum stöðum.

„Flutningsmenn þingsályktunartillögu þessarar telja einmitt þess vegna byggingu Sundabrautar ákjósanlegt verkefni í einkaframkvæmd,“  segir í texta tillögunnar. Bryndis Haraldsdóttir er fyrsti flutningsmaður hennar, en aðrir eru Haraldur Benediktsson, Jón Gunnarsson og Njáll Trausti Friðbertsson.

<>

Vísað er til laga sem samþykkt voru í sumar um samvinnuverkefni og samgönguframkvæmdir sem heimila Vegagerðinni að semja við einkaaðila um að hafa samvinnu um tilteknar brýnar framkvæmdir.

Þar eru þær framkvæmdir tilgreindar, sem áætlað er að vinna sem samvinnuverkefni, og er Sundabraut þar á meðal.

Með þingsályktunartillögunni er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra falið að beita sér fyrir því að Vegagerðin haldi útboð og semji við einkaaðila um lagningu Sundabrautar.

Þeim verði falið að annast að öllu leyti undirbúning, fjármögnun og framkvæmdir við brautina og rekstur um tiltekinn tíma með innheimtu veggjalda og að þeim tíma liðnum taki ríkið við sem veghaldari brautarinnar.

Í þingsályktunartillögunni segir að flutningsmenn telji afar brýnt að ráðist verði sem fyrst í lagningu Sundabrautar. Umferð eigi einungis eftir að aukast og tryggja þurfi öryggisleiðir út úr höfuðborginni til austurs og norðurs ef til náttúruhamfara komi.

Heimild: Ruv.is