Home Fréttir Í fréttum Hús íslenskunnar komið í stað holu íslenskra fræða

Hús íslenskunnar komið í stað holu íslenskra fræða

236
0
Skjáskot af Ruv.is Mynd: Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Hús íslenskunnar hefur tekið á sig heilmikla mynd í Vesturbæ Reykjavíkur.
Forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins segir að verkið hafi gengið vel, þrátt fyrir að reynt hafi á í faraldrinum.
Forstöðumaður Árnastofnunar segir ástæðulaust að hafa áhyggjur af öryggi handritanna, sem verða geymd í kjallara hússins.

Árið 2005 ákváðu stjórnvöld að verja fé til byggingar Húss íslenskra fræða. Fyrsta skóflustungan var svo tekin löngu síðar, í mars árið 2013.

<>

En síðan gerðist ekkert árum saman – á lóðinni var aðeins grunnur, sem gárungarnir kölluðu holu íslenskra fræða.

En nú er töluvert annað uppi á teningnum í Vesturbænum. Holan er horfin og á lóðinni er risið heilmikið hús.

„Við erum með sérstaklega góðan stýriverktaka, Ístak, sem hafa staðið sig af mikilli fagmennsku og miklum sóma,“ segir Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins.

„Það hefur auðvitað reynt heilmikið á í þessu ástandi, þegar erlent vinnuafl þarf meðal annars að fara í sóttkví. En þetta hefur gengið frábærlega og er virkilega flott.“

Þannig að COVID hefur ekki sett neitt alvöru strik í reikninginn?

„Það hefur auðvitað sett strik í reikninginn hjá verktökunum, en það hefur ekki haft áhrif á verkið. Og við erum á undan áætlun.“

Öryggið á oddinn

„Það er algjört ævintýri að fylgjast með því hversu vel þetta gengur og við hlökkuð auðvitað mikið til að fá að fara inn í húsið,“ segir Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar.

Hvenær verður það?

„Haustið 2023.“

Áætlaður kostnaður við verkið er rúmir sex milljarðar króna.

Verkið er á áætlun tímalega séð, hvað með fjárhagslega?

„Þetta er á áætlun miðað við það sem lagt var upp með eftir útboðið,“ segir Guðrún Ingvarsdóttir.

Einhverjir hafa lýst áhyggjum af því að handritin verði geymd í kjallaranum, við hlið bílastæðakjallara, eldhúss og sorpgeymslu, undir yfirborði tjarnar sem mun umlykja húsið. Guðrún segir að þær áhyggjur séu ástæðulausar.

„Aðalatriðið er að það er búið að fara yfir öll þessi atriði, það er miklu öruggara að hafa hana niðri, vegna áhættna sem snerta burðarvirkið, nálægð við flugvöllinn, og önnur atriði sem eru meiri áhættumál ef hún væri uppi,“ segir Guðrún Nordal.

Þannig að það verður mjög öflugt öryggiskerfi í húsinu?

„Já þú getur rétt ímyndað þér. Þetta er aðalatriðið fyrir okkur. Og við höfum hugsað um handritageymsluna allan tímann, að henni verði sem best fyrir komið og að handritin verði örugg.“

Heimild: Ruv.is