Félagið Jörundur ehf. sem er í eigu Reykjavíkurborgar auglýsti til sölu eignina Austurstræti 22 í Reykjavík. Fasteignin er í raun þrjú hús Lækjargata 2, Austurstræti 22 og Austurstræti 22a, öll á sama fastanúmeri 200-2668. Um er að ræða hús sem voru endurbyggð á reitnum í kjölfar bruna 2007. Húsin sem eru hágæða eignir, staðsettar á einum besta stað í miðborginni eru byggð eftir verðlaunatillögum Studio Granda o.fl. Húsin eru alls 2.386 m2 m.v. birt flatarmál.
Tilboð Regins hljóðaði upp á 1.360 m.kr. Húsin eru í fullri útleigu og starfa þar m.a. fyrirtækin Grillmarkaðurinn, Lögmenn Lækjargötu, Nordic Store, Caruso veitingahús og Listaháskóli Íslands. Að meðaltali er lengd leigusamninga rúmlega 5. ár. Tekjur m.v. núverandi leigusamninga eru rúmlega 81 m.kr á ári.
Ef af kaupunum verður er áætlað að EBITDA Regins hækki um tæplega 2% miðað við útgefna rekstrarspá.
Við mat á verkefninu sem fjárfestingakosti telur Reginn að leigutekjur af Austurstræti 22 muni styrkjast á næstu árum vegna hinnar einstöku staðsetningar og eðli eignanna.
Reginn áætlar að innan fárra ára muni afkoma verkefnisins styrkjast og að arðsemi verði yfir 6%.
Seljandi hefur ákveðið að ganga til samningaviðræðna við Reginn um kaup á eigninni á grundvelli tilboðsins.
Tilboðið er háð fyrirvörum um niðurstöðu á laga- og skattalegri áreiðanleikakönnun. Fasteignasalan Eignamiðlun sér um söluferli eignarinnar fyrir hönd seljanda.
Heimild: Reginn Fasteignafélag