Home Fréttir Í fréttum Stækka stöðina um 50.000 fermetra og nær þrefalda starfsmannafjölda

Stækka stöðina um 50.000 fermetra og nær þrefalda starfsmannafjölda

208
0
Stolt Sea Farm á Reykjanesi. Mynd af vef Auðlindagarðsins.

Framkvæmdir við annan áfanga fiskeldisstöðvar Stolt Sea Farm á Reykjanesi hefjast á seinni hluta næsta árs. Þá verður um 50.000 fermetrum af húsnæði bætt við þá 22.000 fermetra sem nú eru til staðar og ársframleiðslan aukin úr 600 tonnum í 2000 tonn. Samhliða framleiðsluaukningunni þarf að fjölga starfsfólki Stolt Sea Farm á Reykjanesi umtalsvert.

<>

Ólafur Arnarsson, framkvæmdastjóri hjá Stolt Sea Farm á Reykjanesi, segir í samtali við Víkurfréttir að nú séu starfsmenn 20 talsins. Þeim þarf fljótlega að fjölga upp í 40-50 en þegar stöðin er fullbyggð er gert ráð fyrir að þar muni 70 starfsmenn starfa við fiskeldið.

Fiskeldisfyrirtækið Stolt Sea Farm Iceland, sem stofnað var árið 2012, á og rekur hátæknifiskeldi á Reykjanesi skammt frá jarðvarmaveri HS Orku. Fyrirtækið er í eigu spænska fyrirtækisins Stolt Sea Farm.

Fiskeldi Stolt Sea Farm nýtir kælisjó frá Reykjanesvirkjun og blandar volga sjóinn með síuðum köldum borholusjó og fær við það eldissjó við kjörhitastig fisksins. Tandurhreinn sjór við kjörhitastig eldisins árið um kring er sérstaða sem eykur öryggi og afkastagetu eldisins. Þannig hefur vaxtarhraði Senegalflúrunnar sem ræktuð er á Reykjanesi verið betri en áætlanir gerðu ráð fyrir og er það þakkað stöðugu hitastigi á sjónum sem notaður er í eldinu.

Heimild: Víkurfréttir.is