Home Fréttir Í fréttum Vilja reisa risastórar vindmyllur á Mosfellsheiði

Vilja reisa risastórar vindmyllur á Mosfellsheiði

129
0
Skjáskot af Rúv.is
Fjölmargar allt að 200 metra háar vindmyllur gætu risið á Mosfellsheiði innan fárra ára, verði hugmyndir norsks fyrirtækis að veruleika.
Kostnaður nemur tugum milljarða. Umverfismat er í undirbúningi og Skipulagsstofnun hefur fengið margar athugasemdir.

Norska fyrirtækið Zephyr, sem er í eigu norskra sveitarfélaga, hefur byggt upp vindorkugarða í Noregi og gert raforkusölusamninga þar við fyrirtæki á borð við Google og Alcoa.

<>

Undanfarin ár hefur félagið horft til Íslands, og lagt töluverða vinnu í að undirbúa vindorkuver víðs vegar á landinu.

Lengst á veg komin er hugmynd um slíkan garð á Mosfellsheiði. Verði það verkefni að veruleika gætu 10 til 40 vindmyllur risið á heiðinni, aðeins steinsnar frá veginum til Nesjavalla.

Eftirspurn eftir raforku ræður

„Í fyrsta lagi er vindurinn oft mjög góður hérna, og meðalvindur hérna er feikilega góður. Síðan er mjög stutt í sterk tengivirki, sem eru ekki langt frá þeim stað sem við stöndum á núna,“ segir Ketill Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Zephyr Iceland.

Þá segir Ketill að samgöngur á svæðinu séu góðar auk þess sem stærsti markaður fyrir raforku á landinu sé á suðvesturhorninu.

Forsvarsmenn norska fyrirtækisins hafa margoft komið hingað til lands og átt fundi með stjórnvöldum og hagsmunaaðilum.

Myllurnar yrðu reistar í áföngum, allt að 40 stykki, kalli raforkueftirspurn eftir því. Ketill bendir á að samkvæmt spá um raforkuþörf gæti þurft að virkja meira hér á landi innan fárra ára.

Ketill segir að kostnaður vegna verkefnisins í heild muni nema nokkrum tugum milljarða króna, en fyrsti áfangi upp á um 50 MW gæti kostað hátt í tíu milljarða króna.

„Mjög stór mannvirki“

Verði verkefnið að veruleika segir Ketill að fyrstu myllurnar gætu risið eftir 5-10 ár. Og ljóst er að þær yrðu mjög stórar.

„Turninn gæti kannski verið 120 metrar og jafnvel hærri, hæð hæsta spaða þegar hann er í toppstöðu gæti orðið 170 til 180 metrar og jafnvel hærri.

Þannig að þetta eru mjög stór mannvirki,“ segir Ketill, en stærðin er nokkuð sem þegar er búið að gera athugasemdir við.

Zephyr hefur lagt fram tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar, sem í kjölfarið kallaði eftir athugasemdum hagsmunaaðila.

Fjölmargar athugasemdir hafa borist, þar á meðal nokkrar frá flugfélögum, flugklúbbum og Landhelgisgæslunni, sem lýsa öll yfir miklum áhyggjum af áhrifum myllanna á fluglínur til og frá höfuðborgarsvæðinu. Í mati Umhverfisstofnunar er hvað mest fjallað um sjónræn áhrif garðsins, áhrif á landslag og ásýnd.

Ketill segir að verið sé að ljúka við endanlega matsáætlun vegna umhverfismats og að sjálft umhverfismatið eigi eftir að fara fram.

Þar verði sjónarmið vegna flugs skoðuð, sem og sjónræn áhrif og fjölmörg önnur atriði. Þá sé búið að tilkynna verkefnið til fjórða áfanga rammaáætlunar.

Heilt yfir, er raunhæft að þetta verkefni verði að veruleika?

„Já annars værum við ekki að þessu. Við værum ekki að fara af stað með þetta nema út af því að við teljum staðsetninguna raunhæfa og við teljum að orkumarkaðurinn muni þróast þannig að það verði þörf á þessu,“ segir Ketill.

Heimild: Ruv.is