Home Fréttir Í fréttum Umfangsmikil og löngu tímabær viðhalds- og endurbótaverkefni á Keflavíkurflugvelli

Umfangsmikil og löngu tímabær viðhalds- og endurbótaverkefni á Keflavíkurflugvelli

308
0
Mynd: Víkurfréttir

Árið hefur verið viðburðaríkt hjá varnarmálasviði Landhelgisgæslu Íslands. Þrátt fyrir farsóttina hefur tekist að halda flestum forgangsverkefnum á sviði öryggis- og varnarmála gangandi og uppfylla þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands þegar kemur að öryggis- og varnarsamstarfinu. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Landhelgisgæslunnar.

<>

Á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli eru að jafnaði 100 – 300 liðsmenn aðildarþjóða Atlantshafsbandalagsins og verktakar sem dvelja á svæðinu tímabundið og á viðurkenndum hótelum á Suðurnesjum.

Það er flókið og ábyrgðarmikið verkefni að tryggja heilsu og öryggi liðsmanna aðildarþjóða bandalagsins á þessum tímum, verkefni sem starfsmenn hafa unnið í nánu daglegu samstarfi við starfsfólk Landlæknisembættisins, landamæraeftirlit Lögreglustjórans á Suðurnesjum og Isavia.

Á sama tíma hafa verið til framkvæmdar stór sem smá viðhaldsverkefni á öryggissvæðunum.

Á Stokksnesi standa yfir umfangsmiklar viðhaldsframkvæmdir á stöðvarhúsinu sem árlega verður fyrir miklum ágangi sjávar. Auk þess sem í gangi er átaksverkefni í hreinsa upp olíumengun fyrri tíma á svæðinu.

Á Bolafjalli er unnið að því að gera svæðið öruggara og aðgengilegra fyrir ferðamenn sem vilja sjá útsýnið af Bolafjalli í samvinnu við Bolungarvíkurkaupstað.

Viðamiklum uppfærslum og endurbótum á ratsjáreftirlitskerfunum á Miðnesheiði, Bolafjalli, Gunnólfsvíkurfjalli og Stokksnesi lauk í ágúst. Framkvæmdir voru að mestu kostaðar af mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins.

Framkvæmdin var unnin af sérfræðingum Landhelgisgæslunnar, NATO og Lockheed Martin, framleiðanda búnaðarins.

Á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli eru til framkvæmdar umfangsmikil, löngu tímabær viðhalds og endurbótaverkefni.

Helstu framkvæmdir eru:

Endurbætur á æfingaaðstöðu Ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunnar. Hönnun og undirbúningi er lokið og er ráðgert að framkvæmdir hefjist á næstu vikum. Verklok við þennan áfanga eru áætluð vorið 2020.

Bygging gistiskála fyrir erlendan liðsafla. Útboði lauk í september og ættu framkvæmdir að geta hafist í lok október. Um er að ræða gistiskála sem rúmar 50 til 100 liðsmenn. Verklok eru áætluð haustið 2021.

Viðhald á þotuskýlum hefur verið í undirbúningi og munu framkvæmdir hefjast í haust og standa yfir til ársloka 2022.

Umfangsmiklar endurbætur standa yfir á flugskýli 831 á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Annars vegar er um að ræða verkefni sem er í umsjón bandaríska sjóhersins og kostað af Bandaríkjamönnum.

Tilgangur verkefnisins er að bæta aðstöðuna hér á landi fyrir nýju kafbátaeftirlitsflugvélarnar, P-8. Helstu verkþættir eru breytingar á hurð, eldvarnakerfum og rafkerfum. Verklok eru áætluð vorið 2021.

Hins vegar eru verkefni sem kostuð eru af íslenska ríkinu og mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins.

Helstu verkþættir eru klæðningar utanhúss, málning innan- og utanhúss ásamt fjölmörgum öðrum viðhaldsverkefnum. Verklok eru áætluð haustið 2021.

Flugskýlið er notað af Landhelgisgæslu Íslands, bandaríkjaher og aðildarþjóðum Atlantshafsbandalagsins en núna er þar þyrla danska flughersins í viðhaldsskoðun.

Bygging þvottastöðvar fyrir flugvélar. Verkefnið er í umsjón og kostað af bandaríska sjóhernum. Verklok eru áætluð vorið 2021.

Endurbætur á akstursbrautum flugvéla, flughlöðum og ljósakerfum á öryggissvæðinu innan Keflavíkurflugvallar. Endurbætur eru að hluta til að mæta kröfum um aukna umhverfisvernd. Verkefnið er kostað af bandaríska flughernum og eru framkvæmdir á vegum verkfræðideildar bandaríska sjóhersins. Verklok verða vorið 2021.

Í september var gerður samningur við ÍAV um stækkun á flugvélastæðum á öryggissvæðinu innan Keflavíkurflugvallar, byggingu á nýju flugvélastæði fyrir hættulegan farm og undirstöðum fyrir færanlega gistiaðstöðu.

Verkefnið er kostað af bandaríska flughernum og eru framkvæmdir á vegum verkfræðideildar bandaríska sjóhersins.

Í samvinnu við Isavia er verið að undirbúa viðhald á akstursbrautum og flughlöðum á Keflavíkurflugvelli, framkvæmdir sem kostaðar verða af Mannvirkjasjóði Atlantshafsbandalagsins.

Í vinnslu er áætlun um uppgræðslu á svæðinu með trjám og öðrum gróðri. Við þá framkvæmd mun ásýnd svæðisins breytast.

Átak hefur verið í gangi við að ganga frá til geymslu hjá Þjóðskjalasafni, skjalasöfnum varnarliðsins, bygginganefndar flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, Ratsjárstofnunar, Varnarmálastofnunar og Landhelgisgæslu Íslands.

Verkefnið hefur verið unnið með stuðningi frá Vinnumálastofnun.

Heimild: Vf.is