Home Fréttir Í fréttum Landsbankinn íhugar að hætta við byggingu höfuðstöðva

Landsbankinn íhugar að hætta við byggingu höfuðstöðva

43
0

Bankastjóri Landsbankans segir að til greina komi að hætta við byggingu nýrra höfuðstöðva á Hörpu-reitnum í Reykjavík en bankinn þurfi að bregðast við gagnrýni frá háttsettum stjórnmálamönnum.

<>

Hönnunarsamkeppni um fyrirhugaða byggingu höfuðstöðva Landsbankans í miðbæ Reykjavíkur átti að hefjast síðar í þessum mánuði. Bankinn tilkynnti um það síðdegis í gær að keppninni hefði verið frestað en í tilkynningu kemur fram að það sé meðal annars gert til að fara yfir þau sjónarmið sem fram hafa komið á síðustu vikum. Vísar bankinn þar til þeirrar gagnrýni sem fram hefur komið, meðal annars frá stjórnarþingmönnum og forsætisráðherra.

„Það hafa ýmsir komið fram og verið að tala um að það mætti skoða þetta aðeins betur. Við teljum eðlilegt að bregðast við því þegar svona hefur komið frá mörgum háttsettum aðilum í þessu þjóðfélagi. Við munum því fara yfir þessi sjónarmið og ábendingar sem er búið að beina til okkar,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.

Bankinn vilji skoða hvort ekki sé hægt að lenda málinu í sátt en ekki liggur fyrir hvort eða hvenær hönnunarsamkeppnin fer fram.

Kemur til greina að hætta við þessi áform?

„Það felst í því að skoða sjónarmið,“ segir Steinþór. Stjórnendur bankans hefðu talið þetta vera mjög hagfelldan kost eftir að hafa skoðað húsnæðismálin vel.

Það að fresta þessari hönnunarsamkeppni. Má skilja það sem svo að bankinn hafi ef til vill farið of geyst í þessi áform?

„Ég veit það ekki. Við höfum kannski ekki komið hlutunum nógu vel á framfæri eða aðilar ekki verið tilbúnir að kíkja á það sem við höfum fram að færa. Ég held að við höfum ekki farið of geyst en ef öðrum finnst það, sem virðist vera, að þá er sjálfsagt að hægja aðeins á og það er það sem við erum að gera núna,“ segir Steinþór.

Frétt frá: Vísir.is