Home Fréttir Í fréttum Kostnaðarsöm frestun uppbyggingar á Hörpu-reitnum

Kostnaðarsöm frestun uppbyggingar á Hörpu-reitnum

55
0
Mynd: Visir.is

Reykjavíkurborg verður af tugum ef ekki hundruðum milljónum króna í fasteignagjöld frestist framkvæmdir á Hörpu-reitnum til lengri tíma. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins og þingmaður Reykvíkinga segist sjá mikil sóknarfæri á reitnum og hvetur Landsbankann til að vera þátttakanda í þeim.

<>

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, sagði í kvöldfréttum Stöðvar tvö í gær að það komi til greina að hætta við byggingu nýrra höfuðstöðva á Hörpu-reitnum. Búið er að fresta hönnunarsamkeppni um fyrirhugaða byggingu. Steinþór sagði bankanna vilja skoða hvort ekki sé hægt að lenda málinu í sátt.

Hrólfur Jónsson, skrifstofustjóri eigna- og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar, segir í samtali við fréttastofu að ef þessi hluti lóðarinnar byggist ekki upp þá eins og til stóð þurfi að takast á við ýmis vandamál. Þar á meðal bílakjallarann.Hann á að vera hluti af byggingunni sem kemur ofan á og erfitt verður að reisa hann á þess að vita hvað kemur ofan á.

Falli Landsbankinn frá áformum sínum og ekkert gerist á reitnum í bráð þýðir það ákveðið tekjutap fyrir Reykjavíkurborg. Hún hefur tekjur sínar af fasteignagjöldum. Gjöld sem tilfelli Hörpu-reitsins nema tugum ef ekki hundruðum milljóna króna.

Landsbanki keypti lóðina á um fimmtíu þúsund kónur á fermetrann. Innifalið í þessu verði eru gatnagerðargjöld sem nema tuttugu þúsund krónum. Þetta er gott verð fyrir bankann, í raun spottprís. Reykjavíkurborg er að selja lóðir í Hádegismóum sex þúsund krónur meira fyrir fermetrann. Þannig gæti bankinn selt lóðina og hagnast nokkuð.

Guðlaugur Þór Þórðarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og þingmaður Reykvíkinga, fagnar ákvörðun Landsbankans um að slá hönnunarsamkeppninni á frest.

„Því miður á Reykjavíkurborg, miðað við fjármálastjórnina, meira undir bönkum en bara það sem snýr að fasteignagjöldum. En þetta tækifæri kemur bara einu sinni. Þegar við erum búin að byggja á þessum reit í miðborg Reykjavíkur þá erum við ekkert að fara að breyta því í grundvallaratriðum. Þannig að við erum að hugsa um hagsmuni til langs tíma. Það skipulag sem ég hef séð og aðrir landsmenn, mér finnst það ekki bera með sér framtíðarsýn. Þó svo að við þurfum eitthvað aðeins að staldra við þá er það þess virði vegna þess að hagsmunirnir eru svo miklir,“ segir Guðlaugur Þór.

Hann segir sóknarfærin mörg og hvetur Landsbankann til að vera þátttakanda í þeim.

„Ef okkur tekst vel upp þá erum við að gera þess góðu borg enn betri sem mun vera segull á ferðamenn enn frekar en nú er um langa framtíð og mun lyfta ferðaþjónustunni á Íslandi enn frekar upp. Þannig að ég sé hér gríðarleg sóknarfæri og ég að Landsbankinn eigi að vera þátttakandi í því.“

Frétt frá: Vísir.is