Home Fréttir Í fréttum Verkís hefur unnið að hönnun 48 íbúða í bænum Maniitsoq á Grænlandi

Verkís hefur unnið að hönnun 48 íbúða í bænum Maniitsoq á Grænlandi

74
0

Verkís hefur undanfarið unnið að hönnun 48 íbúða í bænum
Maniitsoq á Grænlandi. Bærinn, sem áður var þekktur undir nafninu
Sukkertoppen, er á vesturhluta Grænlands,  þar búa um 2.700 íbúar en íbúum þar hefur farið hratt fækkandi á síðustu árum.

<>

Verkefnið snýr að hönnun og gerð útboðsgagna fyrir 24 af þessum 48 íbúðum. Fyrsti áfanginn er farinn í útboð og er áætlað að byrja að byggja íbúðirnar seint í ágúst. Þegar er byrjað að rífa eldri byggingar sem fyrir eru.

Íbúðirnar eru í þriggja hæða blokkum með 12 íbúðum í hverri blokk. Hvert hús er ca. 300 m2 að grunnfleti og er innra skipulag íbúðanna frekar einfalt. Í þeim eru 2 herbergi, stofa sem er sambyggð eldhúsi, og baðherbergi. Íbúðirnar eiga að nýtast íbúum í þorpinu bæði fjölskyldufólki og eldri borgurum. Íbúðirnar á neðstu hæð eru hannaðar með aðgengi fyrir fatlaða.

Byggingarefnið er steypa, stál og timbur en húsið sjálft er staðsteypt og þakvirkið er uppstólað timburþakvirki með berandi timburbitum. Lofthæð í þakvirkinu er allt að 2,2m en innangengt er í þakvirkið frá stigakjarna. Undirstöður blokkanna sitja á klöpp og eru undirstöður einnar blokkarinnar að hluta til byggðar við sjávarmál, vegna þess hve halli klapparinnar er mikill við ströndina. Undirstöður þar eru hannaðar miðað við ágang sjávar.

Verkefnið er unnið í samvinnu við S&M Verkís, dótturfyrirtæki Verkís á Grænlandi, og tegnestuea Qarsoq arkitekta á Grænlandi.

Heimild: Verkís