Opnun á útboði um uppsteypu meðferðarkjarna nýs Landspítala við Hringbraut fer fram kl. 10 í dag hjá Ríkiskaupum.
Um er að ræða eitt stærsta byggingarverkefni síðari ára. Fimm verktakar stóðust forval. Vegna sóttvarnasjónarmiða geta bjóðendur ekki verið viðstaddir.
„Það eru margir fleiri en verktakarnir sem munu bíða spenntir eftir niðurstöðunni, er hér er um að ræða verulega stórt opinbert útboð, sérlega með hliðsjón af húsbyggingum.
Það er gott að finna að það er jákvæður hugur í öllum er varðar uppbygginguna við Hringbraut,“ segir Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala ohf.
Í gangi eru fleiri útboð á vegum NLSH. „Tvö opin útboð eru í auglýsingu hjá Ríkiskaupum, bæði vegna vinnubúðasvæðisins.
Annað snýst um jarðvinnu og veitnagerð á svæðinu og hitt um vinnubúðirnar sjálfar, kaup á gámum, en tilboðsfrestur er til 3. september.
Þá er í farvatninu forval vegna alútboðs á byggingu bílastæða- og tæknihúss og skammt undan er síðan jarðvinna vegna Rannsóknahússins, en stóri dagurinn fyrir alla er á föstudaginn,“ segir Gunnar.
Heimild: Frettabladid.is