Home Fréttir Í fréttum Vita minnst um mesta kostnaðinn

Vita minnst um mesta kostnaðinn

371
0
Skjáskot af Rúv.is
„Þetta er bara villta vestrið hérna á Íslandi,” segir Sigmundur Grétar Hermannsson, húsasmíðameistari um fasteignamarkaðinn og byggingariðnaðinn á Íslandi.
Hann á sér þúsundir fylgjenda á instagram undir nafninu Simmi smiður og er mikið kappsmál að fólki taki upplýstar ákvarðanir í fasteignaviðskiptum.
Honum er tíðrætt um mikilvægi þess að gera ítarlega ástandsskoðanir á fasteignum.
Alltof algengt sé að fólk renni blint í stærstu fjárfestingu lífs síns. Þá hjálpi innviðir kerfisins ekki til.

„Þú ert að kaupa hús fyrir alla peningana þína og taka lán,“ segir Simmi. Margt geti hins vegar verið að; skolp og drenlagnir, þak og gluggar. Þetta þurfi að skoða – en öfugt við eldhúsinnréttingar blasi ástand þeirra sjaldnast við fólki í fasteignahugleiðingum.

<>

Klikki þetta geti kostnaður við lagfæringar verið gríðarlegur.

Simmi starfaði áður hjá tryggingafélagi en er nú húsasmíðameistari og ýmislegt fleira.

Á samfélagsmiðlum má meðal annars sjá hann takast á við alls konar verk í vinnunni og heimavið, en eins og allir sem eiga fasteign vita er að mörgu að hyggja.

Simmi segist þekkja allt of mörg dæmi um fasteignir þar sem gallar og gríðarleg viðhaldsþörf kemur í ljós eftir kaup. Hlutir sem hefðu getað verið og ættu að vera uppi á borði.

„Það sem er alvarlegast í þessu núna eru nýbyggingarnar,“ segir hann. Hann segist hafa skoðað nokkrar ókláraðir íbúðir þar sem enginn tryggi í raun að kaupandinn fái það sem hann borgar fyrir.

Eftirlit með því hvort farið sé almennilega eftir reglugerðum og teikningum vanti. Viðskiptavinir hans fái því engar upplýsingar um ferli framkvæmdanna og fleira. Það sé fáránlegt að það þurfi að ástandsskoða nýbyggð hús.

Allt annað sé uppi á teningnum annars staðar á Norðurlöndunum.

„Foreldrar mínir búa í Danmörku og þar skoða þau fimm eða sex hús áður en þau kaupa og þar fá þau ástandsskoðun, ástandsskoðunarskýrslu og söluyfirlit og fasteigninni fylgir trygging ef upp koma leyndir gallar.”

Hann vill sjá aukið eftirlit með byggingum, aðgengilegri upplýsingar og ítarlegar ástandsskoðanir sem fylgi með sölu fasteigna.

„Ef þetta væri til, einhver rafrænn gagnagrunnur, sem eigendur gætu fyllt út í, þarna væru fyrir og eftir myndir, kvittanir frá iðnaðarmönnum, skýrslur frá tryggingafélögum í vatnstjónum, og þetta yrði bara allt aðgengilegt þegar þú kaupir fasteignina og þú bara tekur við bunkanum, þá væri þetta þægilegra og þetta er ekkert flókið,” segir hann.

Hann segir að menningin á Íslandi hvað þetta varði þurfi að breytast. Það eigi ekki að vera leyndarmál, pukur eða viðkvæmni yfir því að hýbýlum þurfi að sinna.  „Hús leka, allar fasteignir leka, allar fasteignir þarfnast viðhalds.”

Því sé sjálfsagt, þegar nýir eigendur taki við húsi, að þau fái yfirsýn yfir viðhald fortíðar, nútíðar og framtíðar. Hann segir frá því að hann hafi einu sinni komið til eldri manns í húsi sem hann hafði sjálfur hannað og byggt.

Sá var að fara selja. „Ég spurði hann út í hvenær þakið var endurnýjað og þá náði hann bara í bók sem hann hafði fyllt út í samviskusamlega frá því að hann byggði húsið, hann sinnti öllu viðhaldi og hann gat flett upp öllum dagsetningum, hvaða efni voru notuð og í þessu voru kvittanir.

Bara eins og smurbók á bíl,” segir Simmi. „Fólk er að láta ástandsskoða bíla sem kosta nokkrar miljónir en þegar það kaupir fasteign fyrir tugi miljóna spáir það ekki í þessu,” bendir Simmi á.

Fólk eigi rétt á að vita hvað það er að kaupa í þessu sem öðru.  „Þetta er hitamál fyrir mér og ég tek þetta í alvörunni inn á mig, ég starfa sem lögreglumaður í hlutastarfi og ég tek þá vinnu ekki með mér heim, heldur þetta.”

Heimild: Ruv.is